13.nóvember - 20.nóvember - Tbl 46
Íbúðir fyrir 60 manns bætast við Lögmannshlíð
Áætlað er að fara í framkvæmdir á viðbyggingu á dvalarheimilinu Lögmannshlíð á Akureyri á næsta ári. Þar munu rísa íbúðir fyrir allt að 60 manns og gætu mögulega verið tilbúnar til notkunar á árinu 2022. Þetta staðfestir Halldór S. Guðmundsson, framkvæmdastjóri Öldrunarheimila Akureyrar, í samtali við Vikudag og vísar til frumathugunar vegna opinberra framkvæmda sem Akureyrarbær og Framkvæmdasýsla ríkisins fyrir hönd Heilbrigðisráðuneytisins gengu frá í byrjun nóvember.
Bæjarráð Akureyrar lýsti í fyrra yfir vilja til að ráðist yrði í nýbyggingu hjúkrunarheimilis fyrir allt að 60 einstaklinga og sendi erindi þess efnis til Velferðarráðuneytisins. Skipaður var verkefnahópur í apríl 2017 til að vinna tillögur um framtíðarmótun í þjónustu við eldra fólk á Akureyri. Í niðurstöðu verkefnahópsins sagði m.a. að fara þurfi í endurbætur og uppbyggingu húsnæðis ÖA til að heimilin verði í stakk búin til að takast á við fyrirsjáanleg verkefni á næstu árum.
Halldór S. Guðmundsson segir næstu skref þau að Akureyrarbær og Heilbrigðisráðuneytið geri ítarlegra samkomulag um hvernig að framkvæmdinni verði staðið. „Gangi allt að óskum og með smá bjartsýni gætu framkvæmdir hafist síðari hluta næsta árs, enda liggja fyrir ákveðin atriði eins og staðsetningin,“ segir Halldór.
67 rými uppfylla ekki viðmiðunarkröfur
Hann segir áformin um nýbyggingu séu fyrst og fremst svar við því að núverandi pláss á öldrunarheimilum bæjarins þarfnist endurnýjunar. „Það eru 67 rými sem uppfylla ekki viðmiðunarkröfur í dag og samhliða þessum framkvæmdum munum við þurfa að lagfæra önnur rými sem eftir eru. Þessi framkvæmd mun því stórbæta aðstöðuna og gæðin í þjónustu við aldraða á Akureyri. Við munum þegar þessum áfanga er náð, búa við hjúkrunarrými sem hæfa betur þörfum og áherslum í starfsemi hjúkrunarheimila en það sem við höfum í dag,“ segir Halldór.
Í byrjun nóvember voru um 30 manns með mat á þörf fyrir hjúkrunarrými á Akureyri og hefur biðlistinn verið nokkuð stöðugur undanfarna mánuði. Í dag eru skráð 172 hjúkrunarrými og 10 dvalarrými hjá Öldrunarheimilum Akureyrar.