13.nóvember - 20.nóvember - Tbl 46
Íbúaþróun að glæðast í Hrísey
Bæjarráð Akureyrar hefur lýst yfir vilja sínum til að óska eftir framlengingu á byggðaþróunarverkefninu Brotthættar byggðir í Hrísey og hefur falið bæjarstjóra að vinna málið áfram. Í erindi hverfisráðs Hríseyjar til Akureyrarbæjar er skorað á Byggðastofnun að byggðaþróunarverkefnið Brothættar Byggðir verði framlengt um að minnsta kosti eitt ár og óskað eftir afstöðu Akureyrarbæjar til málsins.
Í erindinu segir að verkefninu ljúki árið 2019 og er talið að það hafi haft jákvæð áhrif á bæði íbúaþróunina og atvinnulífið. Meðal annara verkefna var rekstur Hríseyjarbúðarinnar efldur og hvannarverkun hjá Hrísiðn ehf þróuð, en annað stórt verkefni sem hlaut styrki er framleiðsla á landnámshænueggjum í eyjunni.
„Íbúaþróun er byrjuð að snúast við, og atvinnutækifærum fjölgar rólega. Til þess að þessi þróun haldi áfram og verkefnin nái betur að festa sig í sessi, er æskilegt að áframhaldandi stuðningur verði veittur,“ segir í erindinu.
Á vef Rúv segir að í fyrsta skipti síðan árið 2015 sýna tölur frá Hagstofunni jákvæða breytingu í íbúafjölda. Árið 2015 voru skráðir íbúar í Hrísey 172, þeim fækkaði og í fyrra voru þeir orðnir 151 talsins. Í ár eru hins vegar 167 skráðir í Hrísey.