Hús vikunnar: Strandgata 13
Líklega eru mót Strandgötu og Glerárgötu ein fjölförnustu gatnamót bæjarins. Norðvestan megin á því horni stendur tvílyft timburhús frá fyrsta áratug 20. aldar. En Strandgötu 13 reistu Jónas Gunnlaugsson fv. hreppstjóri og Davíð Ketilsson verslunarmaður árið 1907. Húsið er bárujárnsklætt timburhús á háum steinkjallara og með lágu valmaþaki. Það sem helst mætti segja að einkenni húsið er nokkurs konar „skökk lögun“ , þ.e. austurgafl er ekki hornréttur á suðurhlið og grunnflötur hússins fimmhyrningslaga, eins og gaflinn hafi verið „togaður út“. Kemur það til af því, að þess var krafist, að húsið lægi samsíða Glerárgötu og Strandgötu sem ekki voru hornréttar hvor á aðra.
Strandgata 13 hefur frá upphafi verið verslunar- og íbúðarhús og margir hafa átt húsið, verslað þar og búið. Árið 1941 byggði Karl Friðriksson við húsið til norðurs og rak þar veitingastaðinn Hressingarskálann og síðar var þar fatahreinsun bræðranna Vigfúsar og Árna Ólafssona. Þessi viðbygging er nú horfin fyrir löngu.
Sumarið 1998 var farið í miklar endurbætur á húsinu og er húsið síðan hin mesta bæjarprýði. Voru þetta stórframkvæmdir; húsið „tjakkað upp” um ríflega hálfan annan metra og steyptur undir það nýr kjallari. Gluggar og klæðningar voru endurnýjaðar og í nýjum kjallara innréttaður veitingastaður. Þá voru einnig settar svalir framan á húsið, hvor á sinni hæð. Hæðirnar tvær voru innréttaðar sem skrifstofurými og íbúðarrými. Fyrsti veitingastaðurinn sem rekinn var á hinni nýju jarðhæð kallaðist Játvarður en nú er þar taílenski veitingastaðurinn Krua Siam. Á efri hæðum hússins eru verkfræðistofan Opus og Fasteignasalan Holt, auk þriggja íbúða. Þessi mynd er tekin þann 24. febrúar 2019.