Hús vikunnar: Brekkugata 13

Í síðustu viku vorum við stödd við Brekkugötu 11, og færum okkur að næsta húsi norðan við, Brekkugötu 13. En húsið byggði Stefán Þórarinsson árið 1904, en hann fékk síðla árs 1903 lóð og byggingarleyfi „norðan við Frímann Jakobsson“ ( þ.e. Brekkugötu 11). Húsið er tvílyft timburhús með lágu risi og á háum steinsteyptum kjallara. Á framhlið er húsið klætt steinblikki og panel á parti en norðurstafn er steyptur og múrsléttaður. Bárujárn er á þaki og krosspóstar í gluggum.

Árið 1918 er Brekkugata 13 metin og sagt tvílyft timburhús með lágu risi og á háum steinsteyptum kjallara. Norðurhluti, í eigu Hallgríms Kristjánssonar er sagður 6 herbergi auk geymslu, lóð 329 fermetrar að stærð en suðurhlutinn, eign Jakobs Stefánssonar, er sjö herbergi og geymsla, lóð 262 fermetrar. Árin 1936-37 var byggt við húsið til norðurs og það lengt um tvö „gluggabil“. Hönnuður þeirra breytinga var Stefán Reykjalín. Fékk húsið þá að mestu það lag sem það nú hefur.                                                                                               

Um áratugaskeið hefur kjallari hýst verslun og þjónustu. Ef  heimilisfanginu er flett upp á timarit.is koma 368 niðurstöður. Með þeim elstu eru auglýsingar frá 1917 þar sem Hallgrímur Kristjánsson auglýsir málningu, loftrósettur „og fleira er að byggingum lýtur“. Síðar voru í húsinu m.a. rakarastofa og skósmiðir störfuðu þarna um áratugaskeið, Oddur Jónsson frá 1956 og síðar tók Halldór Árnason, sem margir þekkja undir nafninu „Dóri skó“, við rekstrinum.

Þrjár íbúðir eru í húsinu, tvær í norðurhluta og ein í suðurhluta. Húsið hefur hlotið umtalsverðar endurbætur á síðustu árum, er nýlega málað og lítur vel út. Húsið mun friðað vegna aldurs þar eð það er orðið yfir 100 ára gamalt. Myndin er tekin þann 24. júlí 2015.

Nýjast