Hús vikunnar: Brekkugata 11
Neðst við Brekkugötu standa nokkur timburhús frá upphafi 20. aldar. Eitt þeirra er Brekkugata 11. Húsið byggði Frímann Jakobsson, en hann fékk leyfi til að reisa hús, 15x12al. (ca.10x8m) og þá með því skilyrði, að hann kostaði lagningu vegar framan við húsið. Árið 1918 er Brekkugötu 11 lýst í Fasteignamati sem íbúðarhúsi úr timbri, járnklætt þak með porti, kvisti og háu risi á kjallara, alls 8 herbergi auk geymslu. Stærð 8,8x7,5m, skúr 1,9x1,9m og skúr 1,9x2,2m. Á lóðinni stóðu einnig gripahús og heyhlaða auk verkstæðisbyggingar. Lóðin var sögð 657 fermetrar og þar af 425 fermetra matjurtagarður.
Brekkugata 11 er einlyft timburhús með háu portbyggðu risi og miðjukvisti að framan en bakatil er skástæð útbygging og kvistur nær suðvesturhorni og á suðurgafli er forstofubygging með skrautgluggum. Hár steyptur kjallari er undir húsinu sem stendur á víðlendri lóð, hátt upp af götunni. Ekki er greinarhöfundur viss um klæðningu utan á húsinu, en myndi giska á asbestplötur.
Sonur Frímanns, sem byggði húsið, var Jakob, kaupfélagsstjóri KEA til margra ára, bæjarfulltrúi og heiðursborgari Akureyrar og ólst hann upp í þessu húsi en var hins vegar eldri en svo (f.1899) að hann væri fæddur hér. Að öðru leyti er húsið líklega lítið breytt frá upphafi. Húsið er einbýli en ekki ólíklegt að margar fjölskyldur hafi búið í húsinu samtímis á fyrri hluta 20. aldar. Í gluggum eru T-póstar sem gefa húsinu vissan svip, ásamt útskurði undir gluggaskyggnum. Húsið virðist traustlegt í góðu standi, sem og vel gróin lóð. Það er eitt af elstu húsunum við Brekkugötuna og mun friðað vegna aldurs, orðið 100 ára og hálfum öðrum áratug betur. Meðfylgjandi mynd er tekin þann 22. júní 2018.