Hestamenn og útivistarfólk á Akureyri ósátt

Með tilkomu aðflugsbúnaðarins þarf að breyta reiðleið sem liggur frá Akureyri yfir í Eyjafjarðarsvei…
Með tilkomu aðflugsbúnaðarins þarf að breyta reiðleið sem liggur frá Akureyri yfir í Eyjafjarðarsveit yfir Eyjafjarðará. Mynd/Hörður Geirsson.

Hestamenn og útivistarfólk á Akureyri er ósátt með að brú sem átti að reisa í haust verði frestað. Hestamenn segjast einangraðir vestan Eyjafjarðaránnar og líkja aðgerðunum við að Glerárgötunni á Akureyri yrði lokað. Greint er frá þessu á vef Rúv. Unnið er að því að setja upp aðflugsbúnað við Akureyrarflugvöll þessa dagana.

Með tilkomu búnaðarins þarf að breyta reiðleið sem liggur frá Akureyri yfir í Eyjafjarðarsveit yfir Eyjafjarðará. Fyrirhugað var að byggja nýja brú til að leysa þá gömlu af hólmi. Í frétt Rúv segir að í byrjun september hafi forsvarsmenn Hestamannafélagsins Léttis fengið þær fregnir að ekkert yrði af nýrri brú. Búið er að loka þeirri gömlu.

Sigfús Ólafur Helgason, framkvæmdastjóri Hestamannafélagsins Léttis á Akureyri, segir félagið hafa verið í góðu samstarfi við Akureyrarbæ og Isavia til að leita lausna og talið að brúin væri að fara í útboð. Síðan hafi borist tilkynning um að ekkert yrði að því. Talsverð umferð er um stígana, bæði gangandi vegfarenda og hesta, því leiðin er eina reiðleiðin frá Akureyri yfir Eyjafjarðará. Brúin er í aðalskipulagi Akureyrarbæjar og er kostnaður við hana áætlaður um 150 milljónir króna.

Guðmundur Baldvin Guðmundsson, formaður bæjarráðs Akureyrarbæjar, segir í samtali við Rúv vilja fá fleiri að borðinu þar sem framkvæmdin er dýr og nefnir Vegagerðina, Landsnet og Isavia. Farið verði yfir málið á næstu dögum

Nýjast