„Hægt að starfa í pólitík með kurteisi og virðingu“

Gera á starfsumhverfi pólitískra fulltrúa meira aðlaðandi, skapa meira traust á stjórnmálum og búa t…
Gera á starfsumhverfi pólitískra fulltrúa meira aðlaðandi, skapa meira traust á stjórnmálum og búa til farveg komi upp atvik.

Á síðasta fundi bæjarstjórnar Akureyrar voru kynntar og samþykktar samhljóða tillögur starfshóps sem hafði það verkefni að útbúa viðbragðsáætlun vegna ofbeldis, áreitis og/eða kynferðislegrar áreitni sem kjörnir fulltrúar kunna að verða fyrir í störfum sínum fyrir bæinn. Eins átti þessi starfshópur að yfirfara siðareglur og nýliðafræðslu kjörinna fulltrúa. 

Starfshópurinn var skipaður á fundi bæjarstjórnar 12. desember 2017 í kjölfar #metoo umræðu í samfélaginu. Í ágúst 2018 fól bæjarstjórn starfshópnum að endurskoða siðareglur fyrir kjörna fulltrúa í heild sinni og þá sérstaklega þann hluta er snýr að hagsmunaárekstrum. Eins var eftir umræður í vinnuhópum ákveðið að búa til verkferla/viðbragðsáætlanir er snúa að fleiri þáttum í störfum kjörinna fulltrúa heldur en þá er snúa að #metoo.

Eva Hrund Einarsdóttir bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins leiddi vinnu starfshópsins og segir vinnuna hafa verið lærdómsríka. „Þegar metoo byltingin fór af stað þá fóru alls konar tilfinningar og hugsanir af stað hjá mörgum og hreint ótrúlegar sögur komu fram sem gerði það að verkum að þáverandi bæjarstjórn sá sér ríka ástæðu til þess að bregðast við með einhverju móti. Við sem vorum skipuð í starfshópinn upplifðum tilgang þess að fara í verkefnið mikilvægan þess vegna var okkur í mun um að gera þetta vel. Verkefnið varð mun viðameira heldur en lagt var af stað með og fyrir því voru ýmsar ástæður. En í okkar vinnu lögðum við upp með að gera starfsumhverfi pólitískra fulltrúa meira aðlaðandi, skapa meira traust á stjórnmálum og búa til farveg komi upp atvik,“ segir Eva Hrund.

 

Eva Hrund Einarsdóttir

Heilbrigt vinnuumhverfi, samskiptasáttmáli og hagsmunaskráning

Um helstu breytingar segir Eva Hrund að siðareglurnar hafi verið uppfærðar að miklu leiti. „Meðal annars er bætt inn þáttum er snúa  að framkomu, starfsháttum og heiðarleika og áhersla lögð á að kjörnir fulltrúar skapi heilbrigt vinnuumhverfi þar sem hafnað sé hvers konar kynferðislegri eða kynbundinni áreitni, einelti, ógnandi eða annarri vanvirðandi framkomu. Eins var breytt þáttum er snúa að hagsmunaárekstrum og lagt til að bæjarfulltrúar haldi úti hagsmunaskráningu. Meðfylgjandi siðareglunum lögðum við til samskiptasáttmála sem að mér vitandi hefur ekki verið gert í stjórnmálastarfi á Íslandi. Með samskiptasáttmála er ekki verið að ýta undir meðvirkni og að pólitíkinni verði hætt en þó að við séum hér að starfa í pólítík þá er vel hægt að gera það með virðingu og kurteisi að leiðarljósi og huga að því að leiðin til árangurs sé með því að fara í málefnin en ekki manninn,“ segir Eva Hrund.

Hún kveðst eiga von á að önnur sveitarfélög fylgi þeirra fordæmi. „Ég óska þess, því að hafa verkferla, skýrar siðreglur og samskiptasáttmála til þess að spyrna á móti atvikum er tengjast metoo eru einungis til góðs.“  

 

Nýjast