30. október - 6. nóember - Tbl 44
Grófin geðrækt föst í óviðunandi húsnæði
mth@vikubladid.is
Ítrekað og um árabil hefur verið óskað eftir því að Akureyrarbær geri þjónustusamning við Grófina geðrækt og styrki starfsemina fjárhagslega. Slík beiðni var síðast tekin fyrir hjá velferðarráði nú fyrir skömmu og var henni vísað áfram til vinnu við gerð fjárhagsáætlunar. Starfsemi Grófarinnar hófst árið 2013 og hefur á ríflega áratug sannað gildi sitt sem mikilvægur vettvangur fyrir fólk sem glímir við geðraskanir.
Pálína Sigrún Halldórsdóttir framkvæmdastjóri og iðjuþjálfi hjá Grófinni geðrækt segir að Grófin hafi stóst eftir þjónustusamningi við Akureyrarbæ frá árinu 2015 en ekki gengið. Í fyrrahaust kom upp vandi vegna húsnæðismála Grófarinnar sem leigir húsnæði í Hafnarstræti 95 í miðbæ Akureyrar. „Sá vandi varð til þess að við reyndum að knýja á um aukið fjármagn og sendum við inn erindi til bæjarins þar sem við annars vegar óskuðum eftir þjónustusamningi til að mæta aukinni aðsókn í Grófina og hins vegar óskuðum við eftir aðstoð til að leysa úr húsnæðisvandanum,“ segir Pálína. Því miður er ekki nýtt húsnæði í sjónmáli og segir hún þá fátt til ráða annað en að farið verði í lagfæringar á núverandi húsnæði en það kosti verulega fjármuni. „Það myndi hjálpa ef bærinn gerði við okkur þjónustusamning og/eða samþykkti að veita okkurrekstrarstyrk svo ekki þurfi að skera þjónustuna niður til að eiga fyrir dýrari leigu. „Það er heldur ekki góður kostur að fækka stöðugildum til að laga húsnæðið á sama tíma og aðsókn eykst.
Gömul, úrelt og óheilnæm efni í húsinu
Húsið er í eigu Fasteignafélagsins Reita og var reynt að fá félagið til að ráðast í aðkallandi viðgerðir. Stór hluti húsnæðisins er með lélega eða enga loftræstingu og mikið er um gömul, úrelt og óheilnæm efni í húsinu. „Það er alls ekki í boði að mínu mati að fólki úr viðkvæmustu hópum þjóðfélagsins sé boðið upp á aðstöðu af þessu tagi,“ segir Pálína. Hún segir að víða hafi verið leitað eftir nýju húsnæði, en ekkert rekið á fjörurnar enn, hvorki tímabundið né varanlegt. Reitir hafa tilkynnt að húsaleiga hækki um ríflega 100% frá núverandi leiguverði eða ríflega 3 milljónir, verði farið í nauðsynlegar endurbætur og það sé ljóst að Grófin hafi ekki fjárhagslegt svigrúm til að standa undir þeim hækkunum nema til komi aukið fjármagn eða að þjónustan verði skert.
Erfið og snúin staða
„Þetta er mjög erfið og snúin staða, málið vinnst hægt, við höfum leitað ýmissa leiða
en okkur er gjarnan vísað áfram eitthvað annað og biðin eftir lausn lengist,“ segir Pálína. Bærinn hafi ekki verið viljugur að skrifa undir þjónustusamning með ákveðnu fjárframlagi til Grófarinnar fram til þessa og borið því við að lögum samkvæmt væri málaflokkurinn undir hatti ríkisins. Pálína segir fordæmi fyrir því að sveitarfélög styrki starfsemi af svipuðu tagi, m.a. veiti Reykjavíkurborg Hugarafli rekstrarstyrk en einnig sé velferðarsvið Reykjavíkurborgar með þjónustusamning við þau. Fleiri úrræði megi nefna svo sem Hlutverkasetur og Bergið headspace sem einnig njóti styrkja frá sveitarfélögum. Grófin hefur fengið styrki frá ríkinu og árið 2020 var fyrsta árið sem félags- og heilbrigðisráðuneyti veitti Grófinni fé af aukafjárlögum. Árið 2021 var gerður þriggja ára samningur við ráðuneytið. Vinnumálastofun hefur verið með þjónustusamning við Grófina frá árinu 2015 er enn í gildi þjónustusamningur þeirra á milli.
Ómetanlegt öryggisnet
Grófin er opið og gjaldfrjálst úrræði þar sem fólk með reynslu af vanda af geðrænum toga, aðstandendur og fagfólk sem starfað hefur við geðheilbrigðisþjónustu vinnur saman. Unnið er út frá hugmyndafræði valdeflingar, bata og jafningjanálgunar. Grófin geðrækt hefur sinnt ýmsum verkefnum, sem tengjast fræðslu og forvörnum og má þarf nefna Virkið Ungmennahús, Vinnuskólann, geðfræðslu í skólum og hópliðveislu „Það er þörf fyrir úrræði af þessu tagi í okkar samfélagi, opinn og ókeypis stað þar sem fólk getur komið saman. Grófin er öflugt stuðningssamfélag fólks sem er til staðar hvert fyrir annað þegar á reynir og þau tengsl sem hér myndast og vinátta er mörgum ómetanlegt öryggisnet.