Gefum íslensku séns - MA-nemar tóku þátt í íslenskukennslu

Nemendur Braga V. Bergmann í íslensku sem öðru máli og nemendur úr Menntaskólanum á Akureyri áttu sk…
Nemendur Braga V. Bergmann í íslensku sem öðru máli og nemendur úr Menntaskólanum á Akureyri áttu skemmtilegar samræður í SÍMEY í gær Mynd simey.is

SÍMEY leitast stöðugt við að hafa fjölbreytni að leiðarljósi í kennslu í íslensku fyrir fólk af erlendum uppruna. Í gær var kennslan undir formerkjum Gefum íslensku séns, sem er hugmyndafræði sem upphaflega má rekja til Háskólaseturs Vestfjarða.

Í kennslustund í íslensku sem Bragi V. Bergmann var með fyrir nemendur á þriðja þrepi í íslenskunáminu komu í heimsókn fimmtán nemendur Eyrúnar Huldar Haraldsdóttur í íslensku í Menntaskólanum á Akureyri og áttu samtöl við íslenskunemendur Braga.

Markmiðið er þjálfun í töluðu máli og er lögð áhersla á að gefa íslenskunni séns, svo vísað sé til þessa átaks, þ.e. að tala íslensku við þá sem vilja læra íslensku en ekki skipta yfir í ensku ef fólk skilur ekki merkingu orða í fyrstu tilraun. Lykilatriðið er að tala hægt og skýrt og endurtaka orð og setningar ef fólk af erlendum uppruna skilur ekki í fyrstu atrennu. Eða svo vitnað sé til orða Kristínar Bjarkar Gunnarsdóttur verkefnastjóra í SÍMEY: Við viljum ná til sem flestra og leiða fólki fyrir sjónir að allir geta lagt sitt af mörkum við að hjálpa fólki að læra málið. Það þarf ekki próf í íslenskum fræðum til þess.

Heimsókn MA-nemanna, sem allir eru á þriðja ári í skólanum, í SÍMEY í gær, sem kalla má verkefni í hraðíslensku, tókst afar vel. Þeir skiptust á að ræða við íslenskunemendur Braga og fengu þannig innsýn í líf þeirra og jafnframt spunnust skemmtilegar samræður. MA-krakkarnir sögðust hafa haft mikla ánægju af þátttöku í þessu verkefni og það sama má segja um íslenskunemendur Braga V. Bergmann.

Okkur Íslendingum hættir allt of oft til að skipta yfir í ensku ef viðmælendur af erlendum uppruna skilja ekki íslenskuna. En það er ekki það sem bróðurpartur þeirra sem sækja íslenskunám vilja. Þeir vilja læra íslenskuna og lykilatriði er að veita þeim allan þann stuðning sem unnt er til þess.

Þessi samverustund í hraðíslensku í gær tókst afar vel og markar upphafið á átaki í SÍMEY undir formerkjum Gefum íslensku séns. Kristín Björk segir að í framhaldinu verði leitað til fólks á öllum aldri til þess að koma og ræða við nemendur og styðja þá í íslenskunáminu.

 Frá þessu segir á simey.is

Nýjast