Fréttir úr Norðurþingi

Það voru mörg tækifæri til þess að fagna í sumar Mynd Græni herinn/Haffi
Það voru mörg tækifæri til þess að fagna í sumar Mynd Græni herinn/Haffi

Sveitarstjórn Norðurþings fundaði á Kópaskeri fimmtudaginn 19. september sl. Á þeim fundi var samþykkt samhljóða tillaga meirihlutans um að hafin verði vinna við að kostnaðarmeta, kanna fjármögnunarleiðir og skoða útfærslur á uppbyggingu á bættri aðstöðu fyrir áhorfendur á PCC-vellinum á Húsavík. Samþykkt var að vísa málinu til fjölskylduráðs og fjárhagsáætlunargerðar fyrir árið 2025.

Ljóst er að meistaraflokkur karla í knattspyrnu hjá Völsungi mun leika í Lengjudeildinni að ári en í þeirri deild eru gerðar kröfur um aukna aðstöðu fyrir áhorfendur á leikjum liðsins. Þá skýrist einnig í lokaleik sumarsins nk laugardag hvort kvennalið Völsungs nái að sækja sigur og þar með Lengjudeildarsæti eftir frábært fótboltasumar.

Á sama sveitarstjórnarfundi var samþykktur viðauki við fjárhagsáætlun 2024 að upphæð 4 m.kr. vegna samnings við KPMG um gerð stefnu sveitarfélagsins í íþrótta- og tómstundamálum ásamt þarfagreiningu á viðhaldi og uppbyggingu íþróttamannvirkja. Á síðasta kjörtímabili var lagt í vinnu við að greina þarfir fyrir uppbyggingu og endurbætur á íþrótta- og tómstundamannvirkjum í sveitarfélaginu og Norðurþing tók m.a. þátt í íbúasamráðsverkefni á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga þar sem unnið var að því verkefni. Byggt verður á þeim grunni og lagt er upp með að hluti af lokaskjalinu verðiaðgerðaáætlun fyrir viðhald og uppbyggingu á íþrótta- og tómstundamannvirkjum sveitarfélagsins.

Vinnu vegna húsnæðis fyrir Frístund og félagsmiðstöð við Borgarhólsskóla miðar vel og ef áætlanir ganga eftir verður hægt að bjóða verkið út upp úr áramótum. Það er verkfræðistofan EFLA sem vinnur núna að verkfræðihluta byggingarinnar en breyting á deiliskipulagi skólasvæðisins á Húsavík er í yfirferð í ráðum sveitarfélagsins og kemur væntanlega til afgreiðslu sveitarstjórnar á næsta fundi í lok október.

Þá hefur Landslag ehf. lagt fram frumdrög hönnunar lóða Öxarfjarðarskóla og Borgarhólsskóla. Búið er að kynna drögin í ráðum sveitarfélagsins og eru þau nú í kynningaferli hjá skólasamfélögum grunnskólanna tveggja í samráði við skólastjórnendur og starfsfólk framkvæmdasviðs.

Katrín Sigurjónsdóttir sveitarstjóri

Nýjast