Framtíð íþróttavallarsvæðisins

Ragnar Sverrisson skrifar
Ragnar Sverrisson skrifar

Mikil gleði og ánægja ríkti fyrir réttum tuttugu árum þegar við Akureyringar héldum fjölmennasta íbúaþing sem sögur fara af hér á landi.  Tíu af hundraði bæjarbúa voru heilan dag saman að ræða á hvað skyldi leggja áherslu við endurnýjun miðbæjarins. Niðurstöðurnar voru svo teknar saman og þær síðan lagðar til grundvallar tíu árum síðar þegar bæjarstjórn samþykkti samhljóða nýtt skipulag þessa hluta bæjarins. Því miður var niðurstöðunni gjörbreyt nokkrum árum síðar eftir óskiljanleg hrossakaup innan bæjarstjórnar þar sem öllum meginatriðum umrædds íbúaþings var hent í ruslakörfuna.  Áður en það óláns niðurrif átti sér stað reyndum við mörg að fá umræðu um einstaka þætti þess og sjálfur tók ég fram nokkur atriði í athugasemdum sem ég óskaði eftir að ræða við bæjarfulltrúa áður en öllum meginniðurstöðum íbúaþingsins yrði kastað fyrir róða.  Nei, því miður engin umræða, einasta einhverjar kúnstir innan bæjarstjórnar og óskapnaðurinn laminn í gegn án nokkurs samráðs við bæjarbúa. Eftir stendur skipulag sem enginn vill byggja eftir og miðbærinn í sama farinu og fyrir tuttugu árum; ekkert gert og algjör stöðnun.   

Á dögunum samþykkti skipulagsráð bæjarins að koma á fót vinnuhóp til að semja samkeppnislýsingar fyrir  gamla Akureyrarvöllinn. Jón vinur minn Hjaltason benti á að eðlilegt væri að leita til bæjarbúa strax á fyrstu stigum og spyrja þá hvernig þeir vilja nýta svæðið. Satt er það og rétt því ýmislegt kemur til greina og eðlilegt – eins og fyrir tuttugu árum – að velja úr þeim kostum áður en kemur að því að móta tillögur um útfærslu. Velta upp spurningunum hvort þarna ættu að vera íbúðir, fyrirtæki, verslanir, útivistarsvæði eða sambland alls þessa sem síðan mynduðu tengingu samfells miðbæjar milli þess gamla og Glerártorgssvæðisins.  Auðvitað þarf að svara þessum grundvallarspurningum áður en lengra er haldið.

Ef kallað yrði til íbúaþings um skipulag gamla íþróttavallarins er nauðsynlegt að leggja fram nokkra valmöguleika, skýra kosti þeirra og galla fyrir fundarfólki, ræða þá og leita sameiginlegrar niðurstöðu.  Eftir það væri loks tímabært að efna til samkeppnislýsingar sem, eins og fyrir tuttugu árum, byggði á niðurstöðum bæjarbúa. En auðvitað hræða sporin þar sem allt endar innan dyra bæjarstjórnar sem gerir ekkert með það sem íbúar hafa fram að færa – ekki neitt. Hvaða tryggingu hafa bæjarbúar fyrir því að nú verði breyting á? Er ætlunin að taka mið af skoðunum þeirra eða á aðeins að setja upp sjónarspil þar sem fólk leggur á sig að mæta og tjá sig en svo ekkert gert með það sem það leggur til? Það var á Eyrinni í gamla daga kallað að hafa fólk að fífli og þótti ljótur leikur og ekki til eftirbreytni. En kannski er óþarfi að hafa áhyggjur af íbúaþingi um þetta málefni þótt félagi Jón Hjalta hafi lagt það til.  Vísast verður ekkert úr því frekar en mörgum öðrum góðum tillögum. Þess í stað helt sér beint í gerð samkeppnislýsingar um gamla völlinn okkar án þess að spyrja bæjarbúa um grundvallaratriði áður.  Að vísu er almenntviðurkennt að röskleiki sé kostur en margir benda á að það sé til lítils að hlaupa ef hlaupið er í vitlausa átt. 

Reynslan af fjölmennasta íbúaþinginu var sú að bæjarbúar hafa bæði vit og getu til að ræða um brýn hagsmunamál og komast að sameiginlegri niðurstöðu. Það er síðan hlutverk bæjaryfirvalda að útfæra þær með sérfræðingum en ekki að bregða fyrir þær fæti og koma í veg fyrir breytingar og framfarir sem íbúarnir hafa óskað eftir.

Ragnar Sverrisson kaupmaður 

      

Nýjast