Framkvæmdir í fullum gangi í Hlíðarfjalli
Framkvæmdir á nýrri stólalyftu eru í fullum gangi í Hlíðarfjalli. Fyrirhugað er að lyftan verði tekin í notkun í vetur en í síðustu viku var fyrsta mastrið reist. Á vef mbl.is var greint frá því að unnið sé í allt að rúmlega 1.000 metra hæð yfir sjávarmáli og eru aðstæður til að koma steypubílum upp að efstu möstrum erfiðar vegna þess hversu blautt er. Notuð er jarðýta til að draga bílana upp og halda í þá á leiðinni niður.
Það eru Vinir Hlíðarfjalls í samstarfi við Akureyrarbæ sem standa að uppsetningu lyftunnar. Nýja lyftan er 1.238 m og er áætlaður ferðatími í lyftunni 8,5 mínútur. Samanborið er Fjarkinn stólalyftan 1.050 m og ferðatími 6,5 mín. Lyftan verður staðsett sunnan við Fjarkann.