27. nóvember - 4. desember - Tbl 48
Framhaldsskólanemar kynntu sér Háskólann á Akureyri
Það var líf og fjör í Háskólanum á Akureyri í síðustu viku á Opnum dögum. Um er að ræða árlegan viðburð í HA þar sem markmiðið er að framhaldsskólanemar geti kynnt sér námsframboðið og háskólalífið frá fyrstu hendi. Stúdentar háskólans stóðu vaktina á básum allra námsleiða í grunnnámi auk þess sem starfsfólk stoðþjónustu háskólans kynnti skiptinám, stúdentaíbúðir og alla þá fjölbreyttu þjónustu sem stendur stúdentum við HA til boða.
Fullt hús af ungu fólki
Sólveig Birna Elísabetardóttir, formaður stúdentafélagsins (SHA) var ein þeirra sem stóð vaktina. „Það er fátt skemmtilegra en að tala við ungt fólk og segja frá því sem HA hefur upp á að bjóða. Ég hef gaman af því að segja söguna hvernig ég ákvað að velja HA og hversu ánægð ég er með háskólann minn. Við fengum fullt hús af frábæru ungu fólki sem var virkilega gaman að eiga samtal við,“ segir Sólveig Birna.
Katrín Erla Hilmarsdóttir, nemandi í Framhaldsskólanum á Húsavík, var einnig ánægð með Opna daga: ,,Skipulag dagsins var heilt yfir mjög flott. Það var gaman að koma á hvern bás og kynna sér námsleiðirnar. Það sem mér fannst skemmtilegast og stóð upp úr var að nemendur kynntu námið sjálfir og gátu því sagt okkur þeirra reynslu af háskólalífinu. Það var tekið mjög vel á móti okkur og allt svo hlýlegt og flott.“ Aðspurð hvort hún sé búin að ákveða næstu skref að loknu stúdentsprófi segist hún ekki vera búin að ákveða hvað hana langi að læra: „En HA kemur klárlega til greina ef hér verður boðið upp á það nám sem mig langar í.”
Fá betri innsýn
Þá stóð framhaldsskólanemum til boða að fara í skipulagðar gönguferðir um háskólasvæðið þar sem aðstaðan var tekin út og gestirnir fengu enn betri innsýn í lífið í HA. Áslaugu Dröfn Sveinbjörnsdóttur, nemanda í MA, fannst gönguferðirnar gagnlegastar: „Ég kynnti mér ekki margar námsleiðir þar sem ég er mjög föst á lögfræðinni. Ég kynnti mér samt líka viðskiptafræðina og fannst hún alveg áhugaverð. Það sem mér fannst alveg svona standa upp úr var lögfræðin og það var mjög skemmtilegt hvernig þau settu sinn bás upp en þau voru búin að setja upp mál fyrir okkur sem við þurftum að leysa úr,“ segir Áslaug Dröfn.
Háskóladagurinn fer fram á Akureyri fimmtudaginn 8. mars en þá gefst gestum og gangandi tækifæri til að kynna sér allt námsframboð í grunnnámi á Íslandi. Opnað verður fyrir umsóknir viku fyrr í HA en umsóknarfrestur er til 5. júní.