20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Fjölbreytt hátíðardagskrá á Græna hattinum
Nóg verður um að vera á tónleikastaðnum Græna hattinum yfir jól og áramót. Í kvöld, fimmtudagskvöldið 20. desember, eru það tveir af ástsælustu söngvurum landsins, þau Sigríður Thorlacius og Sigurður Guðmundsson, ásamt bassa- og gítarleikaranum Guðmundi Óskari, sem halda áfram sinni jólahefð og reiða fram sérstaka hátíðardagskrá í anda jólanna.
Tónleikarnir hefjast kl. 21.00 og er uppselt. Á föstudaginn 21. desember munu þeir Stebbi Jak og Andri Ívars halda sína árlegu jólatónleika á Græna hattinum. „Öll bestu jóla og ekki-jólalög í heimi verða flutt í tilþrifamiklum "akústískum" útsetningum. Tónræn Jólastund með uppistandsívafi sem lætur engan ósnortinn,“ segir í tilkynningu. Tónleikarnir hefjast kl.22.00
Magni og félagar í Á móti sól telja í öll sín bestu lög auk uppáhalds ábreiðnanna á síðasta laugardegi fyrir jól, þann 22. desember. Tónleikarnir hefjast kl. 22.00. Á annan í jólum er það Queen heiðurshljómsveitin Killer Queen sem stígur á svið en þá þarf vart að kynna fyrir gestum Græna hattsins en þessi næstum 10 ára gamla heiðurssveit hefur troðfyllt staðinn í hvert skipti. Tónleikarnir hefjast kl. 22.00.
Rappsveitin Úlfur Úlfur er ein helsta rappsveit landsins og halda tónleika fimmtudaginn 27.desember og hefjast þeir kl. 22.00. Jónas Sig og Ritvélarnar halda tvenna tónleika á milli jóla og nýárs.
Jónas og félagar verða á Græna hattinum föstudags- og laugardagskvöldið 28. og 29.desember og hefjast tónleikarnir kl. 22.00 bæði kvöldin.
Helgi og hljóðfæraleikararnir ljúka Norðurlandstúrnum 2018 á Græna hattinum 30.desember og hefjast tónleikarnir kl. 22.00.