Ferðamenn ánægðir með söfnin á Norðurlandi

Minjasafnið á Akureyri.
Minjasafnið á Akureyri.

Ferðamenn sem fara á söfn á Norðurlandi eru ánægðir með heimsóknir þangað, innlendir sem erlendir ferðamenn. Þetta er niðurstaða nýrrar rannsóknar sem Rannsóknarmiðstöð ferðamála vann að beiðni Markaðsstofu Norðurlands, en niðurstöður hennar voru kynntar á ráðstefnu á Hótel Kea nýverið. Í fréttatilkynningu frá Markaðsstofu Norðurlands kemur fram að 97% svarenda í könnun RMF sögðust annaðhvort vera ánægðir eða mjög ánægðir með heimsóknir á söfnin og 90% sögðust ætla mæla með því við fjöldskyldu og vini að þeir gerðu slíkt hið sama. +

„Niðurstöðurnar eru mjög ánægjulegar fyrir sögutengda ferðaþjónustu á Norðurlandi og raunar alla ferðaþjónustu, því góð upplifun ferðamanna er auðvitað lykilatriði í allri þróun greinarinnar,“ segir í tilkynningu. Rannsóknir og ráðgjöf ferðaþjónustunnar vann einnig skýrslu fyrir Markaðsstofu Norðurlands, upp úr könnuninni Dear Visitors sem hefur verið unnið markvisst með frá árinu 2004. Þar kom fram að ferðamenn á Norðurlandi eru talsvert líklegri til að skoða söfn eða sýningar en hinn almenni ferðamaður á Íslandi, og því megi gera ráð fyrir því að slík afþreying dragi ferðamenn inn í landshlutann upp að nokkru marki. Ferðamenn á Norðurlandi eru sömuleiðis líklegri til þess að skoða kirkjur og fræga sögustaði.

Nýjast