Beðið svara um aðgerðir gegn hávaða frá bílaumferð
„Við höfum enn ekki fengið svör frá Akureyrarbæ varðandi það hvort bærinn hafi gripið til einhverra aðgerða og þá hverra og hvaða árangri þær hafa skilað,“ segir Leifur Þorkelsson framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Eyjafjarðar en óskað hefur verið eftir upplýsingum frá Akureyrarbæ og Vegagerðinni um umferðarhraða á Akureyri og hvað gert hafi verið til að draga úr honum frá árinu 2015 þegar fyrsta aðgerðaráætlun gegn hávaða kom út. Vegagerðin hefur sent það svar til Heilbrigðiseftirlits að þar á bæ hafi ekki verið gripið til neinna aðgerða til að draga úr hávaða frá umferð.
Fram kemur í aðgerðaráætlun gegn hávaða sem verkfæðistofan Efla vann fyrir Akureyrarbæ árið 2015 að 1.532 íbúðir voru þá í bænum sem bjuggu við hávaða yfir 55 db (A) sem eru viðmiðunargildi reglugerðar, þar af voru 24 íbúðir sem bjuggu við hávaða yfir 65 db(A).
Vegagerðin hefur ekkert gert og engin svör frá bænum
Í kjölfar fundar Heilbrigðisnefndar kom í ljós að frá því að aðgerðaráætlun gegn umferðarhávaða kom fyrst út hafa engar aðgerðir gegn hávaða farið fram af hálfu Vegagerðarinnar og ekki hefur fengist staðfesting á því að Akureyrarbær hafi gripið til aðgerða af neinu tagi. Að mati heilbrigðisnefndar eru aðgerðir í tveimur síðustu aðgerðaráætlunum óljóst skilgreindar og nánast eins frá orði til orðs. Leifur segir að í aðgerðaráætlun komi fram að gera skuli grein fyrir einstökum aðgerðum á skýran hátt.
Nefndin hefur ítrekað fyrirspurn til Akureyrarbæjar varðandi aðgerðir til að draga úr hávaða og óskar jafnframt eftir upplýsingum um það hvort og þá hvenær Vegagerðin og eftir atvikum Akureyrarbær muni grípi til raunverulegra aðgerða til þess að draga úr umferðarhávaða á Akureyri. Enn hafa ekki borist svör fyrir fyrirspurninni. Sú aðgerðaráætlun sem nú er í gildi og væntanlega verið að vinna eftir gildir út árið 2023.