Akureyrarbær ætlar ekki að minnka framboð af kjöti í mötuneytum

Brekkuskóli á Akureyri.
Brekkuskóli á Akureyri.

Akureyrarbær ætlar ekki að minnka framboð af dýraafurðum í mötuneytum leik-og grunnskóla bæjarins. Nýverið barst erindi frá Samtökum grænkera þar sem skorað er á umhverfisráðherra, ríkisstjórn og sveitarfélög landsins að draga úr neyslu dýraafurða og hafa heitar umræður um málið sprottið upp í þjóðfélaginu.

Bæjarráð Akureyrarbæjar vísaði erindinu til umfjöllunar í fræðsluráði. Í bókun fræðsluráðs er bent á að frumskylda Akureyrarbæjar sé að fylgja manneldismarkmiðum Landlæknisembættisins sem styðst við samnorrænar leiðbeiningar.

„Á undanförnum árum hefur hlutur kjöts farið minnkandi í fæði grunn- og leikskólabarna og er nú í boði 6 sinnum (af 21 skipti) í mánuði. Þegar kjöt er í aðalrétt er þess gætt að aðrir fæðuflokkar standi börnum til boða. Grænmeti, salat og ávextir eru í boði alla daga. Ekki er á dagskrá að hætta með kjöt í mötuneytum heldur halda áfram á markaðri vegferð. Áhersla er á að hafa fjölbreytt úrval fæðuflokka og kaupa íslenskar afurðir, helst staðbundna framleiðslu. Með því móti heldur Akureyrarbær áfram ábyrgum rekstri skólamötuneyta,“ segir í bókun fræðsluráðs.

Nýjast