Á hvaða hátt gerir kennsla gæfumuninn í námi?

Háskólinn á Akureyri í samstarfi við Miðstöð menntunar og skólaþjónustu, Akureyrarbæ og Kennarasamba…
Háskólinn á Akureyri í samstarfi við Miðstöð menntunar og skólaþjónustu, Akureyrarbæ og Kennarasamband Íslands bjóða til Ráðstefnu um gæði kennslu.

Háskólinn á Akureyri (HA) í samstarfi við Miðstöð menntunar og skólaþjónustu (MMS), Akureyrarbæ og Kennarasamband Íslands (KÍ) bjóða til Ráðstefnu um gæði kennslu.

Á ráðstefnunni verður kynnt efni nýrrar bókar þar sem fjallað er um gæði kennslu og námstækifæra nemenda í 15 köflum sem skrifaðir eru af höfundum með víðtæka þekkingu og reynslu. Bókin er að miklu leyti byggð á íslenskum niðurstöðum rannsóknar sem lauk á síðasta ári, á gæðum kennslu á Norðurlöndununum, QUINT. Viðfangsefnið er einnig sett í víðara samhengi; til dæmis við farsæld sem markmið menntunar, kennslufræði sem styður við menntun fyrir öll og skapandi námsumhverfi.

Bókin er sérstaklega skrifuð með kennaranema og starfandi kennara, skólastjórnendur og kennsluráðgjafa í huga. Höfundar hafa að leiðarljósi að sameina fræðileg og hagnýt sjónarhorn á viðfangsefni sín þannig að efnið nýtist í kennaramenntun og við starfsþróun í skólum.

Hvernig geta myndbandsupptökur úr kennslustofum nýst?

Á ráðstefnunni verða þrjú aðalerindi og sjö málstofur. Lögð er áhersla á að ræða hvernig megi hagnýta efni bókarinnar í skólastarfi og kennaramenntun. Tvö lykilerindi verða í hverri málstofu og ráðstefnugestir hafa því ríkuleg tækifæri til þess að ræða nám og kennslu frá ýmsum hliðum. Fjallað verður um endurgjöf í kennslu, samræður til náms, vitsmunalega áskorun í námi, læsiskennslu, kennslu sem miðar að því að efla orðaforða nemenda, bekkjarbrag og vellíðan. Þá verður sjónum beint að hönnun, skipulagi og nýtingu námsrýma, altækri hönnun náms og kennslufræði sem styður við menntun fyrir öll, sköpun með tækni og upplýsingatækni í stafrænum skólastofum.

QUINT rannsóknin er umfangsmikil rannsókn þar sem notaðar hafa verið myndbandsupptökur úr kennslu og svör nemenda við spurningakönnun. Gögnin voru greind og leitað er svara við spurningum á borð við hvort aðferðir myndbandstækninnar og önnur stafræn tækni skapi grundvöll fyrir nýjum leiðum í rannsóknasamstarfi milli rannsakenda og kennara á vettvangi. Þannig mun ráðstefnan velta upp möguleikunum á notkun myndbandsupptaka til þess að efla kennara sem rannsakendur í eigin starfi og til að auka þannig gæði náms og kennslu.

„Rannsóknin var yfirgripsmikil og sneri að gæðum kennslu í skólastarfi, tengslum fræða og starfs, starfsþróun og kennaramenntun á Norðurlöndum. Skoðað var hvað einkennir góða kennsluhætti og hvernig þeir geta haft áhrif á árangur nemenda og einnig hvar tækifæri felast til að gera betur og ná auknum árangri í kennslu. Í rannsókninni hefur safnast gríðarmikið af gögnum sem hafa hjálpað okkur að átta okkur á gæðum kennslu í mörgum lykilþáttum sem stuðla að farsæld og árangri í námi,“ segir Guðmundur Engilbertsson deildarforseti Kennaradeildar HA sem skipuleggur ráðstefnuna í samstarfi við Miðstöð skólaþróunar.

Hér er hægt að finna dagskrá ráðstefnunnar og hér er hægt að skrá sig.

Nýjast