13.nóvember - 20.nóvember - Tbl 46
63 meðferðarviðtöl tekin á Barnahúsi á Akureyri
Nýtt útibú Barnahúss á Akureyri hefur staðist væntingar um stórbætta þjónustu við börn utan höfuðborgarsvæðisins og fjölskyldur þeirra. Á tæplega hálfu ári hafa 63 meðferðarviðtöl verið tekin þar, tvö könnunarviðtöl og tíu skýrslutökur fyrir dómi. Þetta kemur fram á vef Akureyrarbæjar.
Fyrsta útibúið frá Barnahúsi í Reykjavík var opnað á Akureyri þann 1. Apríl sl. Barnahús er rekið af Barnaverndarstofu, en útibúið var opnað í samvinnu við lögregluna á Norðurlandi eystra, barnaverndarnefnd Eyjafjarðar og dómstólasýsluna. Í útibúinu er tekið á móti börnum sem hafa orðið fyrir ofbeldi og þeim veitt meðferð. Jafnframt er þar sérútbúin aðstaða með fyrsta flokks búnaði fyrir rannsóknarviðtöl og könnunarviðtöl við börn.
„Útibúið á Akureyri veitir Norðurlandi öllu betri þjónustu, þar sem mun styttra er fyrir börnin að koma í skýrslutökur eða könnunarviðtöl heldur en að fara til Reykjavíkur,“ er haft eftir Ólöfu Ástu Farestveit, forstöðumanni Barnahúss á vef bæjarins.