15 nýta sér þjónustu Ungfrú Ragnheiðar

Berglind og Edda
Berglind og Edda

Berglind Júlíusdóttir og Edda Ásgrímsdóttir eru hjúkrunarfræðingar sem starfa hjá Rauða Krossinum. Þær eru verkefnastjórar Ungfrú Ragnheiðar sem er skaðaminnkandi úrræði fyrir einstaklinga sem neyta vímuefna í æð. Lokaritgerð þeirra í hjúkrunarfræði við Háskólann á Akureyri varð kveikjan að þessu samstarfi. Viðfangsefni þeirra var að komast að því hvort þörf væri fyrir slíkt úrræði hér á Akureyri. Niðurstaðan varð sú að þörfin er til staðar og samstarfið við Rauða Krossinn undir formerkjum Ungfrú Ragnheiðar hófst 4. janúar síðastliðinn. Fyrirmyndin er Frú Ragnheiður, sem er sambærilegt úrræði sem Reykjavíkurborg hefur staðið fyrir með góðum árangri.

Hvað er Ungfrú Ragnheiður?

,,Þetta er aðallega nálaskiptaþjónusta”, segir Edda. “Við erum að hitta einstaklinga sem eru að sprauta sig með efnum í æð. Við erum að láta þau frá hreinan búnað til að draga úr smitsjúkdómum og sýkingum”. Slíkur búnaður inniheldur nálar, sprautur og einnig skilabox fyrir notaðar nálar og taka þær við þeim til förgunar. Þjónustan felst einnig í að veita þessum einstaklingum almenna heilbrigðisþjónustu. Berglind og Edda hafa sótt námskeið í íblöndun efna svo þær geta ráðlagt fólki í þeim efnum. Þá hafa þær allan búnað til að gera að sárum og sýkingum sem fylgt geta neyslunni. Þær útvega einnig næringu eins og orkustykki og hlý föt sem hafa rokið út í vetrarkuldanum. Ungfrú Ragnheiður hefur notið góðs af framlögum bæði hópa og einstaklinga og eru sú aðstoð gríðarlega mikilvæg. Þær vilja koma á framfæri þakklæti til allra sem hafa lagt þeim lið.

Vaktin

Tvisvar í viku, á mánudags- og fimmtudagskvöldum fara hjúkrunarfræðingar Ungfrú Ragnheiðar á vakt. Einstaklingar sem vilja nýta þjónustuna geta haft samband á Facebook eða í gjaldfrjálsan síma og mælt sér mót við þær. Þær ferðast um bæinn á ómerktum bíl og hitta fólkið þar sem þess er óskað. Bíllinn er ekki merktur, ólíkt bíl Frú Ragnheiðar í Reykjavík og það er engin tilviljun. ,,Við vildum ekki hafa okkar bíl merktan því þetta er svo lítill staður”, segir Edda. Einstaklingar sem neita vímuefna í æð er jaðarhópur í samfélaginu og mikil skömm getur fylgt því að sækja sér þjónustu sem þessa. Fólk er oft að sækja búnað fyrir 3-4 aðra og skiptist það á að sækja búnað. Berglind og Edda segjast því hafa náð að hitta flesta þá sem nýta sér þjónustuna.

Gefandi og erfitt starf

,,Okkar skjólstæðingar eru bara fólk eins og ég og þú”, segir Berglind. Þær leggja því mikla áherslu á að mæta fólki á fordómalausum grundvelli. Það er ekkert “smáa letur” þegar kemur að því að nýta sér aðstoð Ungfrú Ragnheiðar og þær segjast ekki skipta sér af neyslu fólks. “Þau geta komið til okkar og fengið aðstoð ef þau vilja við hvað sem er og fá hreinan búnað”, segir Edda. Báðar segja þær að starfið sé mjög gefandi en að sjálfssögðu erfitt líka. ,,Það er mjög erfitt að vita af fólki sem þarf að sofa úti í frostinu”, segir Berglind. Þær nefna að allir skjólstæðingar þeirra séu mjög ánægðir og þakklátir fyrir að þessi þjónusta er í boði. Það sé alltaf gott að geta hjálpað fólki með þvi að gefa því hlý föt og næringu sem sé álíka mikilvægt og að útvega búnað. Þær trúa því að ef þær geti aukið við þann hluta þjónustunnar muni fleiri leita til þeirra. ,,Ég held að það þurfi svo miklu meira en bara nálar og sprautur”, segir Berglind.

Neysluhópurinn að yngjast

Verkefnið fór hratt af stað þegar það hófst í byrjun árs en þær hittu fyrsta skjólstæðinginn strax á vakt númer tvö. Töluverðan tíma hefur tekið að öðlast traust þessara einstaklinga og þeirri vinnu er ekki lokið. ,,Við erum ekki búin að ná til allra ennþá”, segir Edda. Þetta sést á tölunum því af þeim 20-30 sem áætlað er sem neyti vímuefna í æð á Akureyri er helmingur þeirra sem nýtir sér þjónustu Ungfrú Ragnheiðar. Fólkið sem til þeirra leitar er á aldrinum 20-40 ára og kynjaskiptingin er nokkuð jöfn. Lokaritgerð þeirra leiddi í ljós að hópurinn er að yngjast. “Fyrir nokkrum árum var það endapunkturinn að fara að sprauta sig. Núna er fólk miklu óhræddara [..] og byrjar fyrr í neyslunni að sprauta sig”, segir Edda.

Engin gistiskýli eða önnur athvörf

Af þeim sem nýta sér þjónustu Ungfrú Ragnheiðar eru hættulega margir heimilislausir eins og Berglind kemst að orði. Akureyrarbær rekur engin gistiskýli fyrir heimilislausa og einungis lítill hluti allra vímuefnaneytenda er í búsetuúrræði á vegum bæjarins. Þeir einstaklingar sem eftir standa eru háðir vinum og vandamönnum um gistingu. Ekkert er í boði annað en að sofa úti í kuldanum eða sækja aðstoð til Reykjavíkur þar sem biðlistar eru langir. Þá er heldur ekki kvennaathvarf í bænum.

,,Þegar þú ert kominn í vímuefnaneyslu í æð þá ertu kominn á slæman stað”, segir Berglind. Fíknin er sterk og fólk er tilneytt að fjármagna neysluna með vímuefnasölu, þjófnaði og öðrum afbrotum. Konur standa þó einna verst í þessu samhengi. ,,Við vitum öll hvernig stelpur fjármagna neysluna”, segir Berglind og þar á hún við vændi. Það er því greinilega þörf fyrir kvennaathvarf og gistiskýli í bænum. Fyrsta skrefið í að takast á við fíkniefnavandann með skaðaminnkandi nálgun hefur verið tekið með tilkomu Ungfrú Ragnheiðar.

Hafðu samband
Berglind og Edda vilja koma því á framfæri að þeir sem vilja nýta þjónustu Ungfrú Ragnheiðar eða styrkja starfið með matar-, fatagjöfum eða öðrum gagnlegum varning geta haft samband á Facebook eða gegnum gjaldfrjálsan síma: 800-1150.

-KDJ

Greinin birtist upphaflega í Jólablaði Vikudags sem er unnið af fjölmiðlafræðinemum við Háskólann á Akureyri

Nýjast