12 mánaða börn fái leikskólavist haustið 2021

Starfshópurinn leggur til að byggður verði nýr leikskóli við Lundarsel/Lundarskóla á næstu árum. Myn…
Starfshópurinn leggur til að byggður verði nýr leikskóli við Lundarsel/Lundarskóla á næstu árum. Mynd/Akureyrarbær.

Haustið 2021 er talið að öll börn á Akureyri komist í leikskóla við 12 mánaða aldur eða geti nýtt sér aðrar fjölbreyttar leiðir. Þetta kemur fram í skýrslu starfshóps um leiðir til að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla og greint er frá á vef Akureyrarbæjar.

Þrjár sviðsmyndir um fjölgun leikskólarýma eru settar fram og er einnig lagt til að auka niðurgreiðslur vegna daggæslu í heimahúsum, kanna möguleikann á að innrita börn í leikskóla oftar yfir árið og leita leiða til að bæta starfsaðstæður barna og starfsfólks. Á vef bæjarins segir að stefna allra flokka í bæjarstjórn sé með einu eða öðru móti að öllum börnum eldri en 12 mánaða standi til boða leikskólavist eða annað úrræði er fæðingarorlofi lýkur.

Viðmið um innritun barna á leikskóla á Akureyri hefur hingað til verið við 18 mánaða aldur að hausti. Nú í haust var 16 mánaða börnum boðin leikskólavist. Haustið 2021, þegar leikskólinn Klappir við Glerárskóla á að hefja starfsemi, er fyrirhugað að börn 12 mánaða og eldri fái boð um leikskólavist, að því er fram kemur í skýrslunni.

Hópurinn leggur fram þrjár tillögur að sviðsmyndum við fjölgun leikskólarýma í bænum, byggðar á mismunandi forsendum um fjölgun íbúa. Allar gera ráð fyrir að Klappir, nýr leikskóli við Glerárskóla, taki til starfa haustið 2021 og fjölgi þar með plássum í bænum um 90. Jafnframt er tekið tillit til Árholts, ungbarnaleikskóla í Hlíðarhverfi, sem tók nýlega til starfa með rými fyrir 24 börn.

Sviðsmynd 1
Sviðsmyndin byggir á því að jafnvægi verði í fjölda aðfluttra og brottfluttra barna á leikskólaaldri. Lagt er til að þegar Klappir verði tekinn í notkun 2021, með 144 rýmum, verði efra húsið í Pálmholti tekið úr notkun en þar eru 42 rými í dag. Horft er til stækkunar Naustatjarnar um allt að 40 rými, auk þess sem gert er ráð fyrir uppbyggingu á nýjum leikskóla við Lundarsel/Lundarskóla sem fjölgar rýmum úr 90 í 144 árið 2024. Samningur vegna Krógabóls rennur út 2026 og er gert ráð fyrir nýjum leikskóla í hverfinu 2026 eða síðar.

Sviðsmynd 2
Sviðsmyndin byggir á því að aðfluttum börnum á leikskólaaldri fjölgi um allt að 50 umfram brottflutt. Lagt er til að setja létta byggingu við Pálmholt, með allt að 20 rýmum, enda eru aðstæður til stækkunar góðar. Í stað stækkunar Naustatjarnar er horft til þess að byggja nýjan leikskóla í Hagahverfi sem væri hægt að stækka í áföngum, upp í 60 rými. Að öðru leyti eru tillögur þær sömu og í sviðsmynd 1.

Sviðsmynd 3
Sviðsmyndin byggir á því að aðfluttum börnum á leikskólaaldri fjölgi um allt að 100 umfram brottflutt. Eini munurinn á sviðsmynd 2 og 3 er að nú er gert ráð fyrir fleiri rýmum í nýjum leikskóla í Hagahverfi, allt að 110, auk þess sem uppbygging skólans er áætluð á styttri tíma.

Niðurgreiðslur og tíðari innritanir

Nú í haust tóku gildi reglur um auknar niðurgreiðslur til foreldra barna sem hafa náð 16 mánaða aldri og hafa ekki fengið boð um innritun í leikskóla. Er þessum greiðslum ætlað að koma til móts við barnafjölskyldur og minnka mun á kostnaði milli dagvistunar og leikskóla. Starfshópurinn leggur einnig til að hafin verði niðurgreiðsla á áttunda tímanum vegna daggæslu barna í heimahúsum. Áætlað er að niðurgreiðslan komi til framkvæmda í upphafi árs 2020.

Hópurinn telur mikilvægt að kanna möguleika á að innrita börn í leikskóla tvisvar sinnum á ári, ekki bara á haustin eins og nú er gert. Eins stendur til að kanna þann möguleika að hafa þrjár ungbarnadeildir/ungbarnaleikskóla (t.d. neðra hús í Pálmholti, Hulduheimar/Kot og Árholt) sem hver um sig getur innritað börn tvisvar á ári, samtals sex sinnum, segir í frétt á vef Akureyrarbæjar. 

 

Nýjast