„Við sátum stjarfir undir lestrinum“
Ingólfur Sverrisson skrifar Þanka gamals Eyrarpúka
Á æskuárum mínum á Akureyri var kristilegt starf fyrir börn og unglinga með töluverðum blóma. Nægir að nefna: Hjálpræðisherinn, KFUM- og K, Hvítasunnusöfnuðinn, Sjónarhæðarsöfnuðinn, kaþólskan söfnuð og svo Akureyrarkirkjuna sjálfa með séra Pétur Sigurgeirsson í stafni.
Útrás fyrir unga fólkið
Fljótt eftir að hann kom norður stofnaði hann Æskulýðsfélag Akureyrarkirkju fyrir þau börn sem voru fermd. Fram að fermingu gátu þau sótt hinn vinsæla Sunnudagaskóla þar sem gleðin ríkti en hún er andstæða hins svonefnda guðsótta sem enginn tók sér í munn enda ekkert að óttast. Bara vera góð og glöð því við vorum viss um að Jesús væri besti vinur barnanna.
Séra Pétur skynjaði fljótt að unga fólkið í Æskulýðsfélaginu þurfti að fá útrás fyrir krafta sína og hreyfiþörf. Þess vegna voru smíðaðir forláta róðrarbátar sem voru í eigu félagsins í nokkur ár. Þar voru mörg hraustleg áratökin tekin og mátti tíðum sjá róðrarbátana þjóta um Pollinn með hrópum þeirra og hvatningu sem sátu í skut.
Framhaldssagan vinsæl
KFUM- og K voru með sínar barnasamkomur í Zíon efst í Gránufélagsgötu. Þar stjórnaði söngkennarinn góði, Björgvin Jörgensson, öllu hjá okkur strákunum við miklar vinsældir. Hámarki náði hver samkoma þegar hann las framhaldssöguna um Sölva eftir séra Friðrik Friðriksson. Við sátum stjarfir undir lestrinum enda sagan skemmtileg og ekki spillti frábær lestur Björgvins.
Hefur þú fundið krist?
Stundum sáum við fólkið frá Hjálpræðishernum syngja af hjartans lyst á Ráðhústorgi og boða fagnaðarerindið af mikilli sannfæringu. Svo var það einu hverju sinni að við þrír elstu bræðurnir, ásamt Jonna frænda okkar, vorum á leið í bíó og sáum krakka streyma inn í húsið þeirra við Strandgötu. Þar sem við vorum ekki í tímanauð ákváðum við að fara inn og hlusta á söng og hljóðfæraslátt. Þegar við vorum sestir kom ein herkonan til okkar og spurði ljúflega hvort við hefðum fundið Jesús.
Höddi bróðir áttaði sig ekki alveg á hvað hún var að fara og spurði stundarhátt á móti: „Nú er hann týndur?” Við það þykknaði í konunni og hún bað okkur að fara út hið snarasta.
Þannig lauk þeirri hersamkomu heldur snautlega og við örkuðum beint til Stjána í Nýja bíó. Hann tók okkur fagnandi en við þurftum að beita mikilli kænsku til að sannfæra hann um að við værum töluvert eldri en við raunverulega vorum því mynd dagsins var bönnuð innan tólf ára. Frá þeim vélabrögðum verður ekki greint hér enda átti þetta að vera þanki í kristilegum anda.
Öflugt kristilegt æskulýðsstarf
Í Lundargötunni var Hvítasunnusöfnuðurinn undir stjórn heiðursmannsins Jóhanns Pálssonar sem vann á daginn við það þjóðþrifaverk að halda skolpræsum bæjarins í góðu lagi. Sagt var að barnasamkomur þar hafi verið vinsælar og ekkert skort á trúarsannfæringuna.
Á Sjónarhæð, norðan Samkomuhússins, var líflegt barna- og unglingastarf undir traustri stjórn Arthurs Gook sem kenndi Akureyringum auk þess fótbolta fyrstur manna og rak fyrstu útvarpsstöðina fyrir daga Ríkisútvarpsins. Til forna hefði slíkur maður trúlega verið sagður ekki einhamur.
Af þessari litlu frásögn að dæma er ljóst að kristilegt æskulýðsstarf var öflugt á Akureyri á árum áður og ekki því um að kenna ef eitthvað skortir á kristnihald í bænum í dag.
Ingólfur Sverrisson