Breytingaskeiðið – kvennaviðburður í Stórutjarnaskóla

Frá  kvennaviðburðinum í Stórutjarnaskóla 15.apríl síðastliðinn. Myndir/aðsendar.
Frá kvennaviðburðinum í Stórutjarnaskóla 15.apríl síðastliðinn. Myndir/aðsendar.

Grein eftir Maríu Sigurðardóttur

María sig

Þetta orð „breytingaskeið“ hefur í gegnum tíðina verið mjög neikvætt orð og tengt við eldri konur, hita-/svitakóf og breytingar á blæðingum. En er þetta blessaða breytingaskeið eingöngu það sem eldri konur ganga í gegnum og eru einkennin eingöngu þessi tvö áðurnefndu?

Nefnilega ekki og því miður hafa margar konur lent í því að vera ranggreindar, þaggaðar niður og ekki hlustað á þær. Þær hafa fengið lyf við þunglyndi, svefnleysi, gigt, jafnvel greindar með kulnun eða eitthvað annað en í mörgum tilfellum voru þær að byrja eða komnar á breytingaskeiðið. Einkenni breytingaskeiðs eru svo miklu fleiri heldur en við gerum okkur grein fyrir og breytingaskeiðið fer að gera vart við sig fyrr en okkur grunar. Það verður samt að taka það fram að einkenni breytingaskeiðs og kulnunar eru mörg hver þau sömu eða svipuð svo ekki er oft gott að greina þarna á milli.

Ég var greind með svokallaða kulnun í desember 2021. Fór til læknis og fékk þunglyndislyf við depurðinni sem var að hrjá mig, skrifað upp á veikindavottorð þar sem ég minnkaði við mig vinnuna og fór heim niðurbrotin og óviss með framhaldið. Ég hafði enga orku, var lítil í mér, svefninn var í rugli, matarlystin var í rugli, ég hafði ekki áhuga á neinu, lá mikið upp í rúmi og kom engu í verk. Þetta var ekki líkt mér og yfir mig helltist reiði og pirringur.

Kvennaviðburður

 

Hvað var eiginlega í gangi?

Ég bað lækninn um að sækja um hjá Virk fyrir mig sem hann gerði og þvílík dásemd sem það var að komast þar að. Í samráði við ráðgjafann minn fór ég á alls konar námskeið, komst að hjá sálfræðingi og sjúkraþjálfara en ég var líka dugleg að finna mér efni og námskeið til að hjálpa andlegu hliðinni.

Góð vinkona benti mér á einkennlista breytingaskeiðs og eftir að hafa skoðað hann var eins og ég hefði verið slegin utan undir. Úff, ég bara skoraði í nánast öll einkennin og í mesta mögulega í þeim flestum. Þarna fór hugurinn á fullt, ég talaði við lækninn minn sem tók nú frekar fálega undir þessar vangaveltur mínar en ég fékk þó að fara í blóðprufu og komu hormónarnir bara vel út í henni.

Ég var ekki alveg sátt svo ég ræddi við góða vinkonu um þetta og hún benti mér á að tala við Halldóru Skúladóttur hjá kvennaráð.is sem ég og gerði.  Eftir það viðtal kviknaði á mörgum perum. Ég fór að hugsa um allar konurnar í kringum mig sem hafa gengið í gegnum breytingaskeiðið og þá litlu fræðslu sem þær fengu. Þannig að ég hafði samband við Halldóru og hún var meira en til í að koma og fræða konur um þetta blessaða skeið sem allar konur ganga í gegnum en bara á mjög misjafnan hátt og á mismunandi aldri.

Kvennaviðburður

 

Mig langaði reyndar að gera aðeins meira en hafa bara fræðslu. Ég sótti um styrki, bæði til KEA og Þingeyjarsveitar og vil ég þakka þeim sérstaklega vel fyrir rausnarlega styrki sem gerði mér kleift að halda viðburð og bjóða upp á fræðslu og skemmtun. Yndislegu konurnar mínar í Kvenfélaginu Hildi Bárðardal voru til í að vera með mér í þessu og þær seldu veitingar á viðburðinum. Ég fékk til mín tónlistarfólk, Mariku Alavere og Sigurð Skúlason, sem tóku á móti gestum með fallegum tónlistarflutningi, en líka þau Jónínu Björt Gunnarsdóttur og Ívar Helgason sem skemmtu inn á milli fræðsluerinda. Einnig hafði ég samband við nokkur fyrirtæki/hönnuði og bauð þeim að koma með vörurnar sínar til að sýna og selja. Ég fékk nærfatafyrirtækið Sassy til að koma, þær voru með erindi um brjóst og brjóstahaldara og svo var hægt að fara í básinn til þeirra og fá ráðleggingar og versla. Fyrir utan þær komu Blush.is, Blúndur og blóm, Mynja.is, BRYN design, Agndofa – hönnunarhús og Urtasmiðjan og voru með sölubás.

Þann 15. apríl síðastliðinn varð þessi viðburður svo að veruleika en hann var haldinn í Stórutjarnaskóla í Ljósavatnsskarði.  Þetta var algjörlega magnaður dagur þar sem rúmlega 100 konur, já og 1 karlmaður mættu til að hlusta og fræðast, og mættu færri en gátu.

Mæting fór langt fram úr mínum væntingum sem sýnir svo augljóslega hversu brýn þörf er á að fræða konur,  á ÖLLUM aldri. Við verðum að breyta því viðhorfi sem er í gangi í þjóðfélaginu um breytingaskeiðið, við þurfum að efla fræðslu fyrir ungu konurnar sem eiga þetta eftir, fyrir þær sem eru að ganga í gegnum þetta og ekki síst þær sem eru komnar langt á veg eða yfir þetta en samt kannski enn að glíma við einhver einkenni því þó að við séum komnar á hormónauppbótameðferð þá er sigurinn ekki unnin.

Tölum um Breytingaskeiðið, breytum viðhorfum og látum okkur þetta varða. Ég er stolt, meir og full af þakklæti eftir þennan mjög svo viðburðarríka og flotta dag 😊 María Sigurðardóttir

 Kvennaviðburður

Frá Halldóru Skúla hjá Kvennaráð.is:

Þegar María hafði samband við mig og bað mig um að koma norður til þess að halda fyrirlestur á kvennaviðburði sem hún var að skipuleggja þurfti ég ekki að hugsa mig um, heiður að fá tækifæri til þess að fræða fleiri konur (og karla) um breytingaskeiðið, lífsskeið sem allar konur fara í gegnum einhvern tímann á lífsleiðinni.

Hingað til hafa fylgt þessu skeiði alls konar mýtur og af því að það hefur ekki “mátt" tala um þetta hafa konur lifað með þessum mýtum í áratugi með tilheyrandi tjóni fyrir þær og samfélagið. Áhrifin af lækkandi hormónum eru í besta falli óþægileg og þreytandi en fyrir mjög margar konur geta þau orðið lífshamlandi, bundið enda á starfsferlinn og rænt þær lífinu...bókstaflega.

Sorglega staðreyndin er samt sú að það eru ekki bara konurnar sjálfar sem hefur skort þekkingu á einkennum og afleiðingum lækkandi hormóna, læknar og heilbrigðisstarfsfólk hafa verið afar illa að sér og mjög algengt að konur hafi verið ranglega greindar og meðhöndlaðar.

Kveikjan að minni ástríðu fyrir breytingaskeiðinu er mín eigin reynsla, ég hafði ekki hugmynd um að vanlíðanin mín gæti mögulega tengst þessi skeiði þar sem ég var ekki að upplifa hita- og svitaköst, var enn á blæðingum og nokkur ár í fimmtugt þá. Ég vissi ekki um öll hin 30+ einkennin, vissi ekki að breytingaskeiðið spyr ekki um aldur og vissi ekki að einkenni geta hafist 10-12 árum áður en að blæðingar hætta. Þetta kom mér gjörsamlega í opna skjöldu og það sem kom mér mest á óvart var að ég vissi ekki neitt, það voru engar leiðbeiningar að finna neinstaðar og allar konur sem ég talaði við voru í nákvæmlega sömu sporum. En þegar ég hugsa til baka sé ég að mín einkenni voru að byrja í kringum 36-38 ára aldurinn. Mikið hefði ég viljað vita eitthvað um þetta, vita hvernig ég gæti undirbúið mig og við hverju væri að búast. Mér varð hugsað til kvennanna sem á undan hafa gengið, hugsað til ömmu og mömmu og síðan hugsaði ég til dætra minn og ákvað að einhver þyrfti að fara í að breyta þessu, koma þessu skeiði inní dagsljósið og uppfræða konur um hvað er í gangi.

Það er því einstaklega ánægjulegt að fá konur eins og Maríu með sér í lið við að upplýsa samfélagið um þetta skeið, ekki bara konur heldur alla, við erum öll með konur í lífinu okkar hvort sem það er maki, móðir, dóttir, frænka, vinkona eða vinnufélagi, breytingaskeiðið snertir okkur öll.

Kvennaviðburður

Hér á eftir fylgja umsagnir frá nokkrum gestum viðburðarins:

Hólmfríður Hermannsdóttir

Ég fór á magnaðan fyrirlestur um breytingaskeiðið fyrir nokkru síðan. Bókstaflega allt sem Halldóra sagði var merkilegt fyrir okkur konurnar. Það er nefnilega ekkert einfalt að detta inn í þetta skeið og alls ekki eins fyrir allar knour. En aðalmálið er að taka ábyrgð á sjálfri sér, skoða allt sem er öðruvísi og leita svara. Við, hver og ein, þekkjum okkur best og við þurfum að hugsa um okkar líkama og sál. Ég mæli með þessum fyrirlestri fyrir allar konur, alveg frá 35 ára og hreinlega upp úr. Þetta er nefnilega ekkert endilega búið þó við hættum á blæðingum.... og það er gott að vita eins mikið og við getum EF.....

Hildur Ösp Gylfadóttir

Ég ákvað að kíkja á þennan flotta viðburð sem Kvenfélagið Hildur hélt með Möllu í fararbroddi, með góðum fjárstuðningi KEA og Þingeyjarsveitar. Bæði á ég von á að breytingaskeiðið muni hitta mig eins og aðrar konur en einnig finnst mér áhugavert að hugsa um stjórnun og hvort atvinnulífið sé að koma nægjanlega til móts við konur sem fá mikil einkenni og hvort sé verið að ranggreina konur með kulnun í stað þess að meðhöndla einkenni sem kunna að fylgja breytingaskeiðinu. Dagurinn stóð sannarlega undir væntingum, ótrúlega kraftmikill, fræðandi og skemmtilegur. Svona gerist ekki nema með frumkvæði og að fjárstuðningur fáist. Takk Malla, Kvenfélagið Hildur, KEA og Þingeyjarsveit ásamt öllum þeim skemmtilegu söluaðilum sem voru á staðnum og gerðu þetta enn skemmtilegra.

Jóhanna Svava Sigurðardóttir (Jóa)

Laugardaginn 15.apíl 2023 lagði ég af stað akandi frá Húsavík með tónlist í botni og var ferðinni heitið í Stórutjarnaskóla þar sem mér hafði verið boðið á Kvennaviðburð sem snillingurinn hún Malla vinkona mín stóð fyrir. Þegar komið var á staðinn tók lifandi tónlistarflutningur á móti gestum. Sölubásar með allskyns vörum voru í anddyri og inni í salnum þar sem viðburðurinn átti sér stað. Viðburðurinn hófst á yndislegri tónlist meðan fólk var að koma sér fyrir í sætum sínum. Meistarasnillingurinn hún Malla bauð gesti velkomna og sagði í stuttu máli frá því hvað stæði til að bjóða upp á þarna og af hverju hún hefði valið að sjóða þetta saman og bjóða upp á þennan kvennaviðburð. Hún eins og undirrituð er komin á „skeiðið“ og sagði hún í stuttu máli frá sinni þrautagöngu í átt að betri heilsu. Hún setti sig í samband við Halldóru Skúladóttur sem hefur sökkt sér ofan í allt tengt breytingaskeiðinu. Ég held að sé óhætt að titla Halldóru sérfræðing í breytingaskeiðinu. Í kjölfarið ákvað Malla að ef hún hefði grætt á þeim ráðleggingum væri örugglega fleiri konur á svipuðum stað í lífinu sem gætu notið góðs af góðum ráðum. Halldóra var með vægast sagt magnaðan fyrirlestur um breytingaskeiðið, hormónameðferðir og margt fleira. Í hléinu var boðið upp á lifandi tónlist með þeim Jónínu og Ívari og var góð stemmning í salnum. Eftir fyrirlestur Halldóru kom Aníta frá Sassy og gaf góð ráð varðandi brjóst og brjóstahaldara sem var mjög fróðlegt og skemmtilegt. Í stuttu máli var þessi viðburður alveg frábær með vönduðum og fræðandi erindum og flottum sölubásum. Segi bara takk fyrir mig elsku Malla mín ég græddi helling á þessum degi.

Jóhann Rúnar Pálsson, Skólastjóri Þingeyjarskóla

Undirritaður átti þess kost að sækja fyrirlestur um breytingaskeið kvenna og sér ekki eftir að hafa þekkst það góða boð að mæta.

Á fyrirlestrinum kom ýmislegt fróðlegt fram og það skal viðurkennt að um huga minn flaug að þetta hefði ég átt að vera búinn að sækja mér dýpri upplýsinga um mikið fyrr. Ekki síst sem karlmaður, eiginmaður og faðir, kominn yfir miðjan aldur og eigandi marga góða vini, kunningja og samstarfsfólk af öllum kynjum sem upplifa þetta svokallaða breytingaskeið. Það sem kom mér mest á óvart var að upplifa það að stundum virtist sem þónokkuð margar konur, sem margar hverjar voru búnar að upplifa þetta skeið í lífinu, voru að uppgötva að hægt hefði verið að gera hlutina á annan og betri veg heldur en þær gerðu eða gera á þessu skeiði. Einnig var býsna merkilegt að upplifa það að vera eini karlmaðurinn á fyrirlestrinum sjálfum sem hýsti yfir 100 konur.

Fyrirlesarinn var góður og átti auðvelt með að hrífa salinn með sér og virkja til samtals.

Ég hvet alla og þá ekki síst kynbræður mína til þess að kynna sér þessa hluti vel og afla sér þekkingar á breytingaskeiðinu.

Þetta er ekki bara kvennamál.

 

Nýjast