Að vera ég sjálf

Inga Dagný Eydal skrifar
Inga Dagný Eydal skrifar

„Ég fíla svo vel að vera frónari, og búa á Íslandi“, var oft sungið þegar ég var lítil og ég gæti sem best sungið þetta lag flesta daga. Mér finnst fínt að vera í frostpinnafélaginu, elska norðangolu og rigningu og finnst veturinn ekkert svo hræðilegur. Mér leiðast reyndar umhleypingar, saltpækill á götum, sullumbull og hálka til skiptis og væri eins og margir aðrir, alsæl með froststillur vikum saman.

Á fullkomnu Íslandi sem væri þá líka án verðbólgu, snjóflóða og eldgosa en þannig verður það varla í bráð. Umhleypingar setja líka mark sitt á líðan mína, ég verð þreyttari en ella, verð minna mannblendin og sæki í værð og kósíkvöld, heima. Kannski er svolítið styttra í kvíða og depurð á þessum árstíma en annars líður mér yfirleitt vel. Þ.e.a.s. ef ég leyfi mér að gefa svolítið eftir og vera ég sjálf. Það þýðir að halda mörkunum mínum ásættanlegum.

Ég reyni að muna eftir að gera heimaæfingar, stunda núvitund og takmarka útiveru við nauðsynlegar gönguferðir með hundinn. Les bækur og horfi á bíómyndir sem hafa setið á hakanum. Tek mér frí frá fréttum um stríð og hörmungar. Horfi út um gluggann og bíð eftir vorinu. Og til þess að líðanin sé sem best þá er mikilvægt að vera ekki of upptekin af því sem ég ætti að vera að gera af því að öll hin eru að gera það. Það er auðvitað mikið að gerast í menningarlífinu um þessar mundir og ég reyni að velja vel hverju ég alls ekki vil missa af en læt það annars eiga sig. Ég þarf að banda frá mér hugsunum um að ég sé slæm vinkona, frænka, systir eða mágkona af því að ég býð ekki oftar heim eða fer ekki oftar á kaffihús eða út að borða.

Gildin mín segja mér vissulega að traust sambönd við aðra þoli mæta vel að aðilar dragi sig í hlé, sinni sér og sínum allra nánustu, safni kröftum og mæti til leiks þegar betur viðrar í tilverunni. Það er mikilvægt að sinna mér sjálfri þegar ég finn að þess er þörf. Og þótt ofangreint sé mín leið til hvíldar þá er það bara mín leið og aðrir hafa sínar. En ekki síst, þá er mikilvægt að láta ekki það sem samfélagsmiðlarnir segja mér að annað fólk sé að gera, ná til mín. Og ef einhver heldur að það sé einfalt þá er það misskilningur. Við búum nefnilega við það að fyrir okkur eru lagðar sálfræðilegar gildrur alla daga.

Gildrur sem fá okkur til að efast um að við séum að duga til. Við getum ekki opnað sjónvarp, útvarp, tölvur eða símann okkar án þess að þessar gildrur birtist okkur í einhverju formi og mjög oft á þann hátt að sýna okkur hvað öll hin eru að gera eða hvað þau eiga. Öll hin sem eru flottari en við, duglegri að fara út að hlaupa, eru meira á Tene eða skíðum í Austurríki, fara oftar í leikhús, eiga fallegri föt og fara oftar í ræktina. Öll hin sem eru í sjálfsögðu hamingjukasti yfir öllu því sem þau gera, eiga og fara....en ekki við.

Og stundum verður tilfinningin eins og þegar við vorum lítil...og allir aðrirl máttu gera eitthvað skemmtilegt, -nema við. Öll máttu vera úti til klukkan 10, -nema við. Og þó erum við þegar grannt er skoðað, flest með svipaðar efasemdir um okkur sjálf. Samanburður við aðra er okkur eðlislægur. Við tengjumst öðrum strax í frumbernsku, lærum af þeim hegðun, tilfinningar og svo ótal margt annað. Þetta gerum við ævina á enda og það er vandlega innprentað í mannsheilann að bera okkur saman við hópinn og passa inn í hann. Við gátum ekki og getum ekki enn lifað, hvert án annars. Við dáumst að bestu eiginleikunum í öðru fólki og tökum það góða í þeim, okkur til fyrirmyndar. Nútímafólk getur þó vel haft sig sjálft í heiðri, sýnt sér sjálfsumönnun og skilning án þess að það hafi áhrif á stöðu þess innan hópsins. Við þurfum ekki að taka það til fyrirmyndar sem við vitum innst inni að er ekki í takti við lífsgildin okkar og það hver við viljum vera. Við megum og eigum að halda í sérkenni okkar og vera stolt af þeim. Þannig getum við sjálf verið góðar fyrirmyndir. Tengslakenningar, hamingjugildrur og umhleypingasamt veður eiga kannski ekki margt sameiginlegt í fljótu bragði, -og þó.

Tilveran og við sjálf erum allskonar frá degi til dags og það er kannski það sem er svo stórkostlegt. Og nú er Hrafn veðurfræðingur staddur í mínu sjónvarpi, spáir enn fleiri umhleypingum næstu daga og ég get þá skipulagt innilegur næstu daga, farið á bókasafnið, sótt vistir og notið daganna, heppin sem ég er.

Höfundur er hjúkrunarfræðingur og ráðgjafi hjá Heilsu- og sálfræðiþjónustunni

Nýjast