Vondar ákvarðanir Davíðs
Húsvíkingurinn Andri Valur Ívarsson ritaði eftirfarandi pistil á Facebooksíðu sína. Dagskrain.is fékk góðfúslegt leyfi til að birta hann:
Það er hægt að borga einum forseta laun í meira en 1.000 ár* fyrir þá fjárhæð sem glataðist er Davíð Oddsson, þá seðlabankastjóri, stóð að 500 milljóna evru lánveitingu til Kaupþings þremur dögum fyrir hrun bankans haustið 2008.
Davíð hefur farið mikinn í gagnrýni á aðra frambjóðendur. Slegið sér á brjóst og sagst vera fljótur að taka (góðar) ákvarðanir annað en t.d. Guðni Th. sem hljóti að vera lengi að taka ákvarðanir, enda sagnfræðingur! Davíð má eiga það að hann beið ekki boðanna þegar að þessari lánveitingu kom. Davíð þessi var svo fljótur að hugsa að hann lét millifæra þessar 500 milljónir evra (í kringum 70 þúsund milljónir ISK á þeim tíma) inn á Kaupþing án þess að nokkur skjöl væru undirrituð eða gengið frá veðum. Það er óhætt að fullyrða að þetta var vond ákvörðun. Mjög vond enda kostaði hún þjóðina skildinginn. Svo því sé haldið til haga fór bankinn á hausinn 3-4 dögum síðar. Það var því ekki mikil hjálp í millifærslu Davíðs. Dýr var hún samt.
Ég vildi bara halda þessu til haga því mér líkar ekki aðferðarfræði Davíðs í aðdraganda kosninga. Hann upphefur sig á kostnað meðframbjóðenda sinna og hagræðir sannleikanum eins og hentar hverju sinni. Hann er einn af þeim sem segist eftir hrun hafa varað því hvert við stefndum. Það er samt fátt sem styður það en margt sem styður hið gagnkvæma. Hann varaði ekki við neinu, brást ekki við viðvörunarorðum erlendra eftirlitsaðila o.fl. sem má lesa um í rannsóknarskýrslu Alþingis. Hver myndi lána 70 milljarða til banka sem er á barmi falls, án þess að fá svo mikið sem eina undirskrift, vitandi að allt kerfið sé að hrynja? Það segir sig sjálft að hann vissi ekkert hvað var að gerast.
*Tap Seðlabankans vegna lánveitingarinnar var að lokum ríflega 35 þúsund milljónir m.v. heimtur. Föst laun forseta Íslands eru lauslega reiknuð 35 milljónir á ári með launatengdum gjöldum.
Tap SÍ var eflaust meira en 35 milljarðar því það kostaði bankann umtalsverða fjármuni að lána allan gjaldeyri sinn á einu bretti og fá ekki nema brot af láninu til baka mörgum árum síðar. Svo ekki sé talað um umstangið og deilurnar út af því veði sem síðar var lagt fram af hálfu Kaupþings.