Stefna flokksins í utanríkismálum

Gunnar Viðar Þórarinsson og Helga Dögg Sverrisdóttir skrifa

Grunnstef Lýðræðisflokksins er gott samstarf við Nato sem er varnarbandalag og hefur verið hornsteinn í utanríkisstefnu Íslands.

Flokkurinn telur mikilvægt að Íslendingar fari ekki með vopnavaldi gegn öðrum þjóðum. Frá því var vikið á undanförnum árum. Við áteljum þá staðreynd að allir stjórnmálaflokkar á landinu samþykktu vopnakaup og fer þannig með vopnavaldi gegn annarri þjóð.

Þegar svo er komið fyrir íslenskri þjóð er um stílbrot að ræða, sem er mjög alvarlegt. Vilji menn stuðla að vopnakaupum fyrir skattfé Íslendinga á þjóðin að taka þá ákvörðun. Vilji landans var hundsaður og því brugðust flokkarnir á þingi.

Rödd friðar

Sá veldur sem á heldur segir máltækið. Það er mikilvægt að Íslendingar séu rödd friðar og friðarboðskapar. Því miður höfum við ekki átt því láni að fagna. Það er auðveldara að kaupa byssukúlur til að fóðra aðrar þjóðir en að stuðla að friðarviðræðum. Með vissum hætti þvo stjórnmálamenn hendur sínar af vopnakaupum með því að segja, við skjótum ekki.

Herlaus þjóð, sem Íslendingar eru, á að vera rödd friðar á alþjóðavettvangi. Þjóðin er smá og getur því látið gott af sér leiða ef friðarhugurinn er í fyrirrúmi.

Formaður Lýðræðisflokksins hefur nefnt að við eigum að bjóða fram Höfða til að koma stríðandi fylkingum að samningaborðinu. Það er ótrúlegt hvað lítil þjóð getur gert ef vilji er fyrir hendi. Eins og staðan er í dag eygir enginn von um að þeir stjórnmálamenn sem sitja við stjórnvölinn ætli sér friðarviðræður miðað við það fjármagn sem þeir hafa lofað í stríðsrekstur fyrir hönd þjóðarinnar.

Hefur viðrað norrænan her

Þingmaður Sjálfstæðisflokksins viðraði spurninguna um norrænan her þar sem Íslendingar gætu tekið þátt. Það er þyngra en tárum tekið að nokkur þingmaður skuli hafa það á dagskrá að senda unga menn, feður, syni og bræður til útlanda í stríð. Þeir sem sinna hermennsku eru ungir menn. Það hefur sýnt sig að ungar konur sækja ekki í herinn eins og strákar, hvergi á Norðurlöndunum.

Ungum mönnum er slátrað á vígvellinum og skiptir engu hvar stríð geisar. Svo ekki sé talað um saklausa borgara og börnin.

Gunnar Viðar Þórarinsson, athafnamaður, er í 1. sæti Lýðræðisflokksins í Norðausturkjördæmi.

Helga Dögg Sverrisdóttir, sjúkraliði og grunnskólakennari, er í 2. sæti Lýðræðisflokksins í Norðausturkjördæmi.

Nýjast