13.nóvember - 20.nóvember - Tbl 46
Vináttan
Eins og vinátta og umhyggja eru mikilvægir þættir í lífi fólks, hafa hraðinn og kapphlaupið sem einkenna svo margt í okkar daglega amstri, rænt okkur tíma til að rækta þessar kenndir. Svo í upphafi árs brast á með faraldri sem ekki sér fyrir endann á og við höfum neyðst til að hægja á okkur. Sumt er bannað, um annað gilda takmarkanir, margir þurfa að vera í sóttkví og svo mætti lengi telja. Með einangruninni sem sóttkví fylgir, hafa æ fleiri nýtt sér alheimsnetið sem samskiptamáta. Undanfarna mánuði hafa notendur facebook verið drjúgir við að deila og segja frá hinu og þessu fallegu og verið hlýlegir hver í annars garð. Það er svosem ekki nýtt að fólk sendi sín á milli fallegar kveðjur og minningar af ýmsum toga, en eftir að Covid-19 kom upp, hefur þetta aukist til mikilla muna. Það er vel.
Fólk tekur sig saman og býr til ýmisskonar leiki sem það hvetur okkur til að taka þátt í. Það má segja að allir finni þarna eitthvað við sitt hæfi. Kórar og fleiri söngvinir hafa sett saman samsöng, þar sem hver er heima hjá sér og sendir um netheima, þannig að úr verða flott söngverk. Skemmtilegt dæmi er Covid-þríeykið og félagar. Umfram allt eru þarna á ferð falleg lög og textar, fallegur boðskapur og hlýjar kveðjur, margt af þessu með húmorinn í forgrunni. Við verðum hvert öðru hjartfólgnara en áður, því að á erfiðum stundum sameinar vináttan okkur, hvort sem við þekkjumst eða ekki. Kærleikskveðjur til ókunnugs fólks fljúga um internetið heimshorna á milli og samstaðan er mjög víðfeðm.
Það er í raun dásamlegt hve auðvelt er að eignast vini og sjá ást og samhug svo margra þegar á bjátar í lífinu. Við skiljum hvert annað svo vel og getum sett okkur inn í aðstæður sem ella hefði ekki hvarflað að okkur að velta fyrir okkur. Það er ekki lengur sjálfgefið að kíkja í kaffi til vinanna – bara af því. Það er ekki einu sinni sjálfgefið að ein fjölskylda með sama heimilisfang geti yfirleitt verið undir sama þaki á ögurtímum. En með samstilltu átaki, skilningi og þolinmæði er allt hægt, líka að vera án ástvina svo vikum skiptir á meðan heimsfaraldur geisar og nær ákveðnu jafnvægi.
Það nýjasta sem ég hef veitt athygli -og er reyndar orðin hluti af- er facebookhópur sem kallast „What do you see from your window“
Þarna eru tæplega 316 þúsund meðlimir frá öllum heimshornum sem setja inn myndir, yfirleitt teknar út um glugga -og segja frá lífi sínu. Sumir biðjast afsökunar á að hafa bara útsýni yfir verkamannablokkir og skítugar götur og fá á móti hvatningarorð og fullvissu um að allt umhverfi, hvernig og hvar sem er, sé mikils virði. Það gleður. Sumir hafa sorgarsögur að segja og þeir fá hvatningu og hlýju hvaðanæva að. Aðrir sýna okkur hve dásamlegt lífið getur verið þrátt fyrir heimsfaraldur og einangrun. Því að allt snýst þetta um hvatann að gerð síðunnar, kórónuvírus og Covid-19.
Um daginn var sett inn færsla þar sem viðkomandi dásamaði þetta fallega samfélag og stakk upp á að það héldi áfram eftir pláguna. Þá mætti skipta um nafn og höfða til alls þess jákvæða og bjarta í heiminum. Þá kæmi líka aukin fjölbreytni í færslur sem nær eingöngu snúast nú um glugga og útsýni úr þeim. Væri það ekki frábært ef fólk um alla veröld héldi áfram að hvetja hvert annað og senda falleg skilaboð eða rekja raunir sínar og fá hlýleg og uppörvandi orð til baka ? Ég held það bara.
Með bjartsýni og jákvæðni að vopni, vil ég segja þetta:
Einbeitum okkur að því að sjá hið góða í öllu og öllum, í stað þess að dvelja við hið neikvæða. Verum góð hvert við annað, óspör á hrós og klapp á bakið og umfram allt, minnum okkur sjálf og hina á hvers virði vináttan er. Það er ótrúlegt hve miklu hún fær áorkað.
Fyrir utan sterkustu kennd mannsins, ástina, er vináttan best vopna. Hún kostar ekki peninga, hún getur reyndar reynt á þolinmæðina og jafvel valdið sorg, sé ekki rétt með hana farið, en vináttan er allra þrauta virði. Sá er ríkur sem á vin í raun.
Þar sem ég sit og skrifa þennan vináttupistil, verður mér, eins og svo oft þegar ég hugsa um ást og hlýju, hugsað til Kristínar S. Bjarnadóttur. Hún er holdgervingur hlýjunnar.
Ég skora á hana að stinga niður penna og gleðja okkur með næsta pistli.
-Anna Dóra Gunnarsdóttir