Vill kanna ásakanir Eyþings gegn fyrrum framkvæmdastjóra

Full­trúi í sveit­ar­stjórn Sval­b­arðsstrand­ar­hrepps tel­ur ástæðu til að leita sann­leik­ans varðandi ásak­an­ir stjórn­ar Eyþings um kyn­ferðis­lega áreitni fyrr­ver­andi fram­kvæmda­stjóra sam­tak­anna sem sett­ar voru fram í tengsl­um við brottrekst­ur hans.

Valtýr Þór Hreiðars­son, full­trúi í sveit­ar­stjórn, tók málið fyr­ir í bók­un á fundi sveit­ar­stjórn­ar sl. þriðju­dag. Hann rifjaði sér­stak­lega upp þau orð í yf­ir­lýs­ingu stjórn­ar Sam­taka sveit­ar­fé­laga og at­vinnuþró­un­ar á Norður­landi eystra, SSNE, og fyrr­ver­andi stjórn­ar­manna Eyþings um að stjórn Eyþings hefði aldrei sakað fram­kvæmda­stjór­ann fyrr­ver­andi um kyn­ferðis­lega áreitni á vinnustað og að þau orð væru frá hon­um sjálf­um kom­in.

Valtýr seg­ist hafa rætt við vitni sem kölluð voru til við aðalmeðferð máls fram­kvæmda­stjór­ans fyrr­ver­andi fyr­ir Héraðsdómi og hafi framb­urður þeirra verið í al­gerri and­stöðu við full­yrðing­ar stjórn­ar.

Forsaga málsins er sú að Pétur Þór Jónasson fyrrverandi framkvæmdastjóri Eyþings höfðaði mál til heimtu bóta vegna meintrar ólögmætrar uppsagnar ráðningarsamnings. Stjórn Eyþings sagði Pétri Þór upp störfum þann 31. janúar 2019 að undangengnum tilraunum til gerðar starfslokasamnings.

Í vor samþykkti bæjarráð Akureyrar beiðni SSNE, nýs landshlutasamtaka á Norðurlandi, um aukaframlag upp á tæpar tíu milljónir króna vegna dómsáttar í máli Péturs Þórs gegn Eyþingi. Gerð var dómsátt við Pétur sem fólst í eingreiðslu að fjárhæð 14.800.000 kr. og að deilum aðila um starfslokin væri þar með lokið.

Bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins á Akureyri lagði fram bókun um að aldrei hefði þurft að koma til þess neikvæða ferlis sem er lokið með dómssáttinni ef rétt hefði verið haldið á starfslokamáli fyrrverandi framkvæmdastjóra Eyþings frá upphafi.

Nýjast