20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Vill einhver taka það að sér að laga Sigmund Davíð
Um helgina fór fram vorfundur miðstjórnar Framsóknarflokksins. Þar steig Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður flokksins í pontu, en hann hefur snúið aftur í hringiðu stjórnmálanna eftir nokkurt hlé,- með stormi dettur mér í hug að segja. Hann byrjaði á því að lýsa því yfir í viðtali í þættinum Á Sprengisandi á Bylgjunni að það liggi ekkert á að halda kosningar, eins og lofað hefur verið að gera í haust.
Í ræðu sinni á vorfundinum talaði hann m.a. um það að Framsóknarflokkurinn hafi orðið fyrir aðdróttunum undanfarna mánuði sem hafi haft mikil áhrif á hann sjálfan og fjölskyldu hans.
Talað var um það eftir á að ræða hans hafi verið mun persónulegri en menn eiga að venjast. „Þó ég hafi yfirleitt og alltaf talað um okkur þá mun ég líka að þessu sinni tala um mig, konuna mína og fjölskyldu, einkamálefni og jafnvel tilfinningar,“ sagði hann t.d. í ræðunni.
Skammaði fjölmiðla
Hann skaut föstum skotum á fjölmiðla sem hann segir hafa verið ósanngjarna í sinn garð. Hann talar sérstaklega um Wintris viðtalið margfræga, en um það sagði hann: „Það var búið að skrifa handritið fyrir fram. Viðtalið snerist ekki um að finna sannleikann, það snerist um að koma höggi á flokkinn í gegnum mig“.
Svo fer hann að útskýra að verstu mistökin hafi hann gert eftir viðtalið.
„Við fórum í það næstu tvær vikurnar að afla gagnanna fyrir þess menn. Alltaf var reynt að svara þeim spurningum sem þeir vildu fá. Svo kom á daginn að þetta snerist aldrei um að afla upplýsinga. Þetta snerist um að halda mér uppteknum í tvær til þrjár vikur. Það var búið að skrifa handritið fyrir framan og búið að æfa það hvernig mætti láta viðtalið líta sem verst út.“
Þessar orð Sigmundar Davíðs urðu til þess að Reykjavík Media, Kastljós Rúv, ICIJ og UG SVT sendu frá sér sameiginlega yfirlýsingu þar sem fram kemur að Sigmundi Davíð hafi ítrekað verið boðið að koma fram í viðtali til að útskýra aðkomu sína að Wintris inc.
Kunnugleg taktík
Þetta er kunnugleg taktík hjá SDG að reyna draga athyglina frá sínum eigin axarsköftum með því að saka fréttamenn um annarlegar hvatir, já og í rauninni bara að kasta sökinni ætíð sem lengst frá sjálfum sér. Meira að segja varaformaður Framsóknarflokksins og sitjandi forsætisráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson hefur sagt að SDG hefði mátt gera ýmislegt á annan veg en hann gerði í kjölfar Panama-lekans.
Á áðurnefndum vorfundi Framsóknarflokksins segist SDG áfram ætla að vera formaður flokksins. „Eftir þennan mikla stuðning sem að ég fann á þessum fundi þá held ég áfram í því tvíefldur,“ sagði hann sjálfur að loknum fundi.
Hann hefur einnig verið að ferðast um kjördæmi sitt, Norðurland eystra og fundað með Framsóknarfólki, eflaust til að kanna hversu mikils stuðnings hann nýtur og til að safna vopnum sínum. Á þessum fundum hefur hann m.a. útskýrt fyrir fundargestum sína hlið á samskiptum sínum við Ólaf Ragnar Grímsson forseta Íslands á Bessastaðafundinum fræga 5. apríl s.l. Hann vill meina að Ólafur Ragnar hafi verið tilbúinn með utanþingsstjórn þegar þeir hittust á Bessastöðum.
Þurfti nauðbeygður að stíga til hliðar
Sigmundur Davíð ætlar sér greinilega framhaldslíf í stjórnmálum og ég fæ ekki betur séð en að hann ætli sér að leiða flokkinn í næstu kosningum. Gott mál og blessað. Það sem ég hins vegar get með engu móti skilið er: Afhverju í ósköpunum maður með fulla greind, kemur eins og stormsveipur inn á hið pólitíska svið á ný eftir stutt hlé; og ætlar að beita nákvæmlega sömu taktík og varð til þess að honum var ekki vært á sviðinu lengur og þurfti nauðbeygður að stíga til hliðar og segja af sér embætti forsætisráðherra. Það eru ekki nema rétt um tveir mánuðir síðan.
Ég fæ það stundum á tilfinninguna að Davíð Oddson sé helsta fyrirmynd SDG að leiðtoga. Að sterkur leiðtogi eigi að sína andstæðingum sínum yfirgang og frekju og hjóla í menn og skamma þá séu þeir ósammála honum. Enda virkaði þessi foringjaaðferð mjög vel fyrir Davíð þegar hann var í pólitík.
Árið 2016 sýnist mér hins vegar almenningur hafa minni áhuga á freka kallinum sem leiðtoga, a.m.k. ef marka má fylgi Davíðs samkvæmt skoðanakönnunum í baráttunni um forsetaembættið.
Sigmundur Davíð er ágætis náungi
Ég hef rætt Sigmund Davíð við margt fólk og oft eru uppi háværar raddir um að hann sé hræðilegur, siðblindur og jafnvel sturlaður. Hann sýni einræðistilburði og sé gjörsamlega óhæfur til að sinna valdastöðu af nokkru tagi. Ég hef líka hlýtt á hógværari raddir, raddir fólks sem annað hvort þekkja Sigmund Davíð ágætlega,- persónulega eða í gegnum vinnu sína. Ég er að tala um fólk sem er Framsóknarfólk, en líka fólk sem er hægt að kalla andstæðinga Framsóknarflokksins; en umfram allt er ég að tala um fólk sem ég treysti og trúi.
Þetta fólk dregur upp aðra mynd af formanni Framsóknarflokksins. Það talar um greindan mann og skemmtilegan. Mann sem brennur af áhuga á því að láta gott af sér leiða- og hefur látið gott af sér leiða,- við skulum ekki gleyma því þrátt fyrir allt.
Einn sem ég ræddi við talaði um að kannski hafi Sigmundur Davíð stigið of brátt inn á svið stjórnmálanna og klifið metorðastigann helst til of hratt. Hann er eftir allt saman mjög ungur af stjórnmálaleiðtoga að vera. Hann á sér heldur ekki sérlega langa sögu að baki í stjórnmálum. Annar sem ég ræddi við og þekkir ágætlega til Sigmundar Davíðs talaði um að hann mætti líklega temja sér meiri auðmýkt þegar hann kemur fram.
Reynsluleysi orðið honum að falli?
Hugsanlega er hægt að skrifa það á reikning reynsluleysis hvernig Sigmundur Davíð hefur brugðist við gagnrýni og fjölmiðlaumfjöllun í forsætisráðherratíð sinni og í kjölfar Wintris viðtalsins.
Ég er þess fullviss að Sigmundur Davíð búi yfir fjölmörgum mannkostum sem geta komið að góðum notum í stjórnmálum. Hann getur vel öðlast pólitískt framhaldslíf og gert þjóðinni mikið gagn, en til þess að svo geti orðið verður hann að ræsa slípirokkinn og pússa niður grófustu vankantana í framkomu sinni og starfsaðferðum.
Hinn eilífi sandkassaleikur
Íslensk stjórnmál minna mig oft á sandkassaleik, svona eins og maður sér á leikskólum. Framganga Sigmundar Davíðs og taktík er þar engin undantekning. Hvernig hann virðist alltaf þurfa að endurútskýra hlutina eftir á og undarlegar tilraunir hans til að breyta sögunni með því að afvegaleiða umræðuna. Þessi taktík og framkoma formannsins er niðurlægjandi fyrir alla sem tengjast Framsóknarflokknum og raunar Íslendinga alla, en þó mest fyrir hann sjálfan. Þessi taktík er einmitt dæmi um svona sandkassaleik á leikskóla sem er komin úr böndunum, þar sem hinir fullorðnu sem vitið hafa meira hlaupa til og skakka leikinn.
Ég vil því biðla til allra góðra Framsóknarmanna, sér í lagi já-manna Sigmundar Davíðs að hlaupa til og skakka leikinn - því ef þið gerið það ekki, þá gera kjósendur það í haust.
P.s. Höfundur er ekki Samfylkingarmaður og hefur aldrei verið.