13.nóvember - 20.nóvember - Tbl 46
Vilja jarðgöng um Öxnadal
Vegagerðin vekur athygli umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis á því að til að tryggja öruggari vetrarsamgöngur milli Skagafjarðar og Eyjafjarðar megi grafa göng undir Öxnadalsheiði. Slík göng með gangamunna í svipaðri hæð og rætt er um í tillögu um Tröllaskagagöng gætu orðið um 11 km löng og kostað helmingi minna en Tröllaskagagöng.
Frá þessu var greint í Morgunblaðinu. Ábending Vegagerðarinnar kemur fram í stuttri umsögn um þingsályktunartillögu varaþingmannanna Stefáns Vagns Stefánssonar og Bjarna Jónssonar um að hafin verði vinna við rannsóknir, frumhönnun og mat á hagkvæmni við gerð jarðganga á Tröllaskaga.
Tröllaskagagöng hafa lengi verið í umræðunni. Einkum hefur verið rætt um göng frá Hofsdal yfir í Barkárdal en einnig tvenn jarðgöng sem færu fyrst úr Hörgárdal yfir í Skíðadal og þaðan vestur í Kolbeinsdal í Skagafirði. Rökstuðningur fyrir göngunum er að fjallvegurinn um Öxnadalsheiði geti verið verulegur farartálmi yfir vetrarmánuðina og að göngin myndu stytta leiðina úr Skagafirði til Akureyrar, segir í frétt Morgunblaðsins.