Vilja byggingarsvæði fyrir eldri borgara á Akureyri

Skortur er á húsnæði fyrir eldri borgara á Akureyri.
Skortur er á húsnæði fyrir eldri borgara á Akureyri.

EBAK og Búfesti hsf. hafa lagt inn erindi hjá bæjaryfirvöldum á Akureyri með ósk um að tekið verði frá byggingarsvæði fyrir umtalsverðan fjöld íbúða sem væru í forgangi fyrir 60 ára og eldri. Í tilkynningu frá Búfesti segir að um gæti verið að ræða byggingarsvæði í þægilegu nágrenni við fyrirliggjandi þjónustukjarna við eldri borgara eða á nýju svæði þar sem þá væri frá upphafi gert ráð fyrir tiltekinni uppbyggingu á þjónustu í samstarfi við aðila.

„Greinilegt er að mikil þörf er að byggja húsnæði sem sérstaklega tekur mið af þörfum þessa þjóðfélagshóps varðandi aðgengi og innréttingar. Aðstæður eldri borgara eru auðvitað mjög mismunandi að því er eignir og lífeyri varðar,“ segir í tilkynningu. Samtöl milli forystufólks EBAK og Búfesti hsf. ganga út á það að í stærri íbúðakjörnum sem byggðir væru á vegum félaganna mundi vera unnt að mæta öllum þessum hópum; með byggingu leiguíbúða með stofnstyrkjum mætti koma til móts við lakast setta hópinn, leiguíbúðir og hóflegur búseturéttur getur síðan mætt þörfum langflestra og til viðbótar mætti bjóða efnalega vel settum að fullfjármagna sínar íbúðir í búseturétti eða séreign -  en þó með föstum kjörum varðandi endursölu.

Aðkallandi þörf

Benedikt Sigurðarson, framkvæmdastjóri Búfesti, segir mikla þörf fyrir húsnæði fyrir eldri borgara í bæjarfélaginu. Hann bendir á að ekkert leiguhúsnæði sé í forgangi fyrir eldri borgara og ekkert hafi verið byggt í forgang fyrir þennan aldurshóp af ódýrari gerðum íbúða. Benedikt segir ennfremur að umtalsvert hlutfall eldri borgara búi í eigin húsnæði sem er þeim erfitt á marga lund, í lyftulausu fjölbýli eða sérbýli með tröppum og stigum og erfiða umhirðu og viðhald.

„Sé litið á aldurssamsetningu íbúa á Akureyri sérstaklega þá staðfestist að hlutfall 50 ára og eldri er orðið talsvert yfir landsmeðaltali. Öll tölfræði bendir til þess að fjöldi aldraðra muni bara halda áfram að aukast og þannig verði mjög vaxandi þörf fyrir sérbúið húsnæði miðað við þessar þarfir,“ segir Benedikt. Hann segir að bæjaryfirvöld hafi tekið jákvætt í erindið.

„Þess vegna reiknum við með því að unnið verði markvisst á næstu vikum þannig að þess verði ekki alltof langt að bíða að ákvörðun um slíka uppbyggingu á íbúðakjarna í forgang fyrir 60 ára og eldri verði fundinn staður í skipulagi og formlegri undirbúningur framkvæmda geti þá hafist,“ segir Benedikt.

Nýjast