20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Vilja betri mokstur um Dettifossveg
Markaðsstofa Norðlands hefur sent frá sér ályktun þar sem krafist er betri moksturs um Dettifossveg. Í ályktuninni segir að Dettifossvegur hafi ekki verið mokaður að vetrarlagi nema tvisvar sinnum á ári, samkvæmt G-reglu Vegagerðarinnar um vetrarþjónustu. Þetta sé óásættanlegt og ítrekað hafi verið bent á mikilvægi snjómoksturs á þessum vegi á undanförnum árum.
„Lítið hefur hinsvegar breyst og í dag er staðan sú að vegurinn er ófær öðrum en þeim sem keyra um á breyttum jeppum. Dettifoss er eitt helsta aðdráttaraflið í ferðaþjónustu á Norðurlandi, enda fossinn sá aflmesti í Evrópu. Stjórn Markaðsstofu Norðurlands skorar á stjórnvöld að tryggja fjármagn til þjónustu allt árið um kring við Dettifossveg. Sú þjónusta verður enn mikilvægari þegar búið verður að klára veginn frá Dettifossi og að Ásbyrgi. Ekki verður við það unað að sá vegur verði ekki mokaður yfir vetrartímann, enda sú framkvæmd til þess gerð að tryggja og efla samgöngur um Norðurland allan ársins hring,“ segir í ályktun.