Vesturbrú yfir Eyjafjarðará vígð

Frá vígsluathöfninni í gær. Á myndinni eru Sigfús Ólafur Helgason framkvæmdastjóri Léttis og Sigurðu…
Frá vígsluathöfninni í gær. Á myndinni eru Sigfús Ólafur Helgason framkvæmdastjóri Léttis og Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra. Ljósmynd/Þorgeir Baldursson.

Ný brú yfir vestari kvísl Eyjafjarðarár var vígð við hátíðlega athöfn í gær. Á sama tíma var tilkynnt að brúin fái heitið Vesturbrú. Dagskráin hófst með hópreið hestamannafélagsins Léttis að brúnni ásamt Sigurði Inga Jóhannssyni samgönguráðherra undir söng Karlakórs Eyjafjarðar. Guðmundur Baldvin Guðmundsson, formaður bæjarráðs Akureyrarbæjar, flutti stutt ávarp við vígsluna, þakkaði þeim sem komu að verkinu og tilkynnti um val dómnefndar á heiti brúarinnar.

Efnt var til nafnasamkeppni og bárust hátt í 60 tillögur. Nokkrir lögðu til nafnið Vesturbrú sem var niðurstaðan. Sigurður Ingi samgönguráðherra klippti á borða með aðstoð ungrar hestakonu úr Létti og síðan fóru allir yfir brúna. Þarna voru samankomnir fulltrúar hinna ýmsu hópa sem njóta þess að stunda útivist á svæðinu, hestamenn, hjólreiðafólk, hlauparar og göngufólk. Brúin er mikil samgöngubót fyrir útivistarfólk og nýtist jafnt gangandi, ríðandi, hlaupandi og hjólandi vegfarendum.

Hún leysir af hólmi gamla brú sem færa þurfti sunnar vegna uppsetningar á aðflugsbúnaði við Akureyrarflugvöll. Framkvæmdir hófust síðla árs 2019 og gengu mjög vel, er fram kemur á vef Akureyrarbæjar. Brúin er 60 metra löng stálbrú með þriggja metra breiðu timburgólfi. Heildarlengd nýrra malarstíga sitt hvoru megin við brúarstæði eru um 600 metrar. Verkefnið var unnið í samstarfi Akureyrarbæjar, Vegagerðarinnar og Landsnets.

Nýjast