Verslunarkjarni rís í gamla Sjafnarhúsinu

Verslunarkjarninn Norðurtorg mun opna í gamla Sjafnarhúsinu. Mynd/Þröstur Ernir.
Verslunarkjarninn Norðurtorg mun opna í gamla Sjafnarhúsinu. Mynd/Þröstur Ernir.

Verslunarkjarni mun rísa í gamla Sjafnarhúsinu á Akureyri við Austursíðu 2. Félagið Norðurtorg ehf. hefur keypt húsnæðið og óskað eftir heimild til að byggja við húsið og fara í jarðvegsskipti fyrir fyrirhuguð bílastæði sunnan hússins. Félagið hefur þegar fengið framkvæmdaleyfi á jarðvinnu fyrir lóðina.

Samkvæmt heimildum Vikublaðsins liggur ekki endanlega fyrir hversu margar verslanir verða í húsinu. Blaðið hefur fengið það staðfest að Rúmfatalagerinn sé ein af þeim verslunum sem mun færast í verslunarkjarnann en Rúmfatalagerinn hefur verið í Glerártorgi frá stofnun verslunarmiðstöðvarinnar. Unnið er í því að fá aðrar verslanir og samkvæmt heimildum blaðsins er önnur stór verslun þar á meðal.

Verslunarkjarninn mun bera nafnið Norðurtorg og vera í anda Korputorgs í Reykjavík þar sem margar verslanir verða í einu og sama húsinu. Enn er verið að vinna í hönnun á því hvernig fyrirkomulagið verður en áætlað er að verslunarkjarninn verður opnaður næsta sumar.    

Nýjast