Verja 40 milljónum til ferða-og menningarstarfsemis

Akureyri.
Akureyri.

Bæjarstjórn Akureyrar hefur samþykkt að verja allt að 40 milljónum króna til ferða-og menningarstarfsemis í sumar. Hilda Jana Gísladóttir, bæjarfulltrúi og formaður Akureyrarstofu, greinir frá þessu á Facebooksíðu sinni.

Þar segir Hilda Jana að Akureyrarstofa hafi unnið að undirbúningi aðgerða í ferða- og menningarstarfsemi fyrir það óvenjulega sumar sem framundan er - sumarið 2020. Segir í færslu Hildu Jönu að í undirbúningsferlinu hafi starfsmenn verið í samtali og samskiptum við fjölmarga aðila í ferðaþjónustu, menningarstarfi og viðburðahaldi.

Verkefnið er í þremur liðum. Í fyrsta lagi er um að ræða sérstakt markaðsátak fyrir Akureyri á innanlandsmarkaði. Þar er horft er til þess að byggja markaðssetninguna á sérstöðu svæðisins; nálægð við náttúruna og útivistarmöguleika á sama tíma og í boði er iðandi mannlíf, verslun og góð þjónusta á öllum sviðum. Eins á að vekja athygli á Hrísey og Grímsey.

Til þess að styðja við markaðsátakið og auka og efla framboð hverskonar afþreyingar sem hentar allri fjölskyldunni er annar liður tillögunnar að komið verð á fót styrktarsjóði sem hafi breiða skírskotun. Þannig á hann að ná til fjölbreytilegs hóps aðila í ferðaþjónustu, menningarlífi og íþrótta- og útvistargeira. Markmiðið er að virkja sem flesta sem hafa aðstöðu og sköpunarkraft til að þróa fjölbreytt framboð sem henta fólki á öllum aldri.

Þriðja aðgerðin er aukafjárveiting í menningarsjóð. Hún á að nýtast í skapandi verkefni og menningarviðburði sem geta verið óháðir markaðs- og vöruþróunarátakinu og þar að auki verið verkefni sem ekki koma til framkvæmda fyrr en næsta haust eða vetur. Með því móti segir Hilda Jana að megi bregðast við þeirri eyðu sem orðið hefur í viðburðahaldi og menningarstarfi á meðan á samkomubanni og takmörkunum hefur staðið.

„Ég til þetta ákaflega mikilvæg innspýting fyrir okkar bæjarfélag, bæði nú og til framtíðar. Með þessu móti getum við sýnt í verki að stundum er sókn besta vörnin. Staðan er þröng og óvissan enn mikil en einmitt þess vegna tel ég mikilvægt að sýna líka sóknarhug,“ segir Hilda Jana.

Nýjast