„Verður mjög erfitt fyrir mörg fyrirtæki á svæðinu“

Von er á 350 þúsund ferðamönnum á Norðurland í sumar.
Von er á 350 þúsund ferðamönnum á Norðurland í sumar.

Mikil óvissa er í ferðaþjónustu á Norðurlandi í sumar vegna gjaldþrots Wow Air að sögn Arnheiðar Jóhannsdóttur framkvæmdastjóra Markaðsstofu Norðurlands. Arnheiður segir að horfur fyrir sumarið hafi verið góðar, bókunarstaða víðast verið betri en á sama tíma í fyrra og almennt verið mikil bjartsýni fyrir sumrinu áður Wow Air fór í þrot.

Von er á ríflega 650 þúsund ferðamönnum á Norðurland í ár og þar af ríflega 350 þúsund yfir sumartímann. „Almennt vita menn lítið um hver áhrifin verða því upplýsingar eru ekki til staðar um hversu stór hluti af bókunum koma í gegnum Wow. Fólk er að tala við söluaðila erlendis og einnig að taka við afbókunum, breytingum og fyrirspurnum þessa dagana,“ segir Arnheiður.

Afbókanir og fyrirtæki halda að sér höndum

Hún óttast að áhrifin verði veruleg og eru viðbrögð ferðaþjónustufyrirtækja almennt þau að halda að sér höndum varðandi mannaráðningar og skipuleggja sumarið miðað við að sjá fram á fækkun. „Afbókanir fóru að berast strax og ljóst var hvernig færi, en einnig höfðu bókanir minnkað vikurnar á undan vegna óvissunnar. Þetta verður mjög erfitt fyrir mörg fyrirtæki á svæðinu. Sumarið í fyrra var ekki gott og við hefðum því þurft að sjá gott sumar framundan,“ segir Arnheiður.

Arnheiður Jóhannsdóttir

Mega ekki við miklum sveiflum

Stærstur hluti ferðaþjónustufyrirtækja á Norðurlandi eru lítil fyrirtæki sem mega ekki við miklum sveiflum að sögn Arnheiðar. „Árstíðasveiflan er ennþá gríðarleg hjá okkur þótt að við höfum náð að lengja tímabilið fram í október til nóvember víðast hvar. Fyrirtæki eru að ná inn langstærstum hluta tekna sinna yfir sumarið og því ljóst að skammtímaáhrifin af falli Wow verða mikil á þessu svæði. Við eigum von á því að sjá önnur flugfélög stíga að einhverju leiti inn í þá eftirspurn sem er eftir flugi til Íslands yfir sumartímann og að þeir farþegar skili sér norður,“ segir Arnheiður.

Mikill kraftur í okkar fólki

Arnheiður segir að fólk í ferðaþjónustu láti þó ekki deigan síga. Ferðaþjónustan sé í mikilli þróun og ýmsar nýjungar á Norðurlandi. „Voigt Travel flýgur hingað í sumar frá Rotterdam og Super Break verður hér aftur næsta vetur. Einnig erum við að þróa nýtt verkefni, Norðurstrandarleið (Arctic Coast Way), sem ætlað er að vekja athygli á Norðurlandi og hefur þegar vakið mikla athygli erlendis. Það er því ljóst að þrátt fyrir mikil skammtímaáhrif af falli Wow Air þá eru allar forsendur til staðar til þess að ferðaþjónustan á Norðurlandi haldi áfram að vaxa og dafna enda er mikill kraftur í okkar fólki og mikil þróun framundan,“ segir Arnheiður Jóhannsdóttir.

Nýjast