13.nóvember - 20.nóvember - Tbl 46
Úthlutuðu styrkjum úr minningarsjóði Baldvins
Nýverið var heiðruð minning Baldvins Rúnarssonar með veglegri úthlutun úr minningarsjóðnum í hans nafni en Baldvin hefði fagnað afmæli sínu þann 15. janúar. Minningarsjóður Baldvins Rúnarssonar var settur á stofn í júnímánuði af fjölskyldu og vinum Baldvins sem lést þann 31.maí sl. eftir fimm ára baráttu við krabbamein.
Sjóðnum er ætlað að styrkja einstaklinga, félög eða hópa á sviði íþrótta- og mannúðarmála sem er í anda Baldvins. Göngudeild Sjúkrahússins á Akureyri, þar sem Baldvin dvaldi í sinni meðferð, var færður að gjöf meðferðarstóll að verðmæti 830 þúsund krónur. Þá fékk Glerárskóli styrk en þar var Baldvin nemandi frá 4.bekk og þar til hann útskrifaðist úr 10.bekk. Fékk Glerárskóli Canon myndavél og Marshall ferðahátalara að gjöf.
Í minningarleik Baldvins þar sem Þór og Magni áttust við í Boganum á Kjarnafæðismótinu í knattspyrnu var leikmannahópum beggja liða færður þakklætisvottur fyrir sína þátttöku en bæði lið fengu nuddbyssu að gjöf frá sjóðnum. Vert er að taka fram að leikmenn og þjálfarar borguðu sig inn á leikinn.
Í hálfleik í þeim leik var Hetjunum, félagi langveikra barna á Norðurlandi, veittur peningastyrkur upp á eina milljón króna. Verður styrkurinn nýttur í að efla íþrótta og tómstundastyrk Hetjanna. Nam heildarúthlutun sjóðsins á þessum fyrsta afmælisdegi Baldvins eftir andlát hans, 2.120.000 krónum.