Upprennandi listakonur í Hofi

Ungar og upprennandi listakonur koma fram á tónleikum Tónlistarfélags Akureyrar í dag, sunnudaginn kemur þann 4. nóvember kl. 17 í Hömrum í Hofi. Duo Zweisam skipa þær Katrin Szamatulski flautuleikari og Þóra Kristín Gunnarsdóttir píanóleikari.

Þær flytja verk sem öll tengjast ljóðum og söng á einhvern hátt. Á dagskrá eru verk frá þremur löndum og þremur öldum, stórverk flautubókmenntanna og minna þekktir gullmolar. Erótík, óendurgoldin ást og rómantískur dauði, japönsk tónlistarhefð, undurfögur orðlaus ljóð og grískur harmsöngur eru meðal umfjöllunarefna tónlistarinnar sem leikin verður. 

Miðasala er á mak.is og í miðasölu Hofs. Það eru Akureyrarbær, Menningarfélag Akureyrar og Rannís sem eru styrktaraðilar þessara tónleika.

 

Nýjast