Undirskriftalisti þar sem mótmælt er skipulagsbreytingum á Oddeyrinni

Fyrirhugaðar skipulagsbreytingar á Oddeyrinni hafa verið mikið til umræðu á meðal íbúa Akureyrar. Lj…
Fyrirhugaðar skipulagsbreytingar á Oddeyrinni hafa verið mikið til umræðu á meðal íbúa Akureyrar. Ljósmynd: Þórhallur/Pedromyndir

Hátt í hundrað manns hafa skrifað nafn sitt á undirskriftalista á vef Þjóðskrár Íslands þar sem mótmælt er fyrirhuguðum háhýsabyggingum á Oddeyrinni á Akureyri. Ábyrgðarmaður undirskriftalistans er Björgvin Ólafsson.

Eins og fjallað hefur verið um undanfarið er fyrirhugað að reisa allt að 11 hæða byggingar á Oddeyrinni og eru hugmyndirnar afar umdeildar í bæjarfélaginu.

Um undirskriftalistann segir:  

„Listi þessi er settur í loftið til þess að gera almenningi auðveldara fyrir að mótmæla þeirri tillögu sem bæjarstjórn Akureyrar hefur nú nýverið samþykkt er varðar breytingar á núverandi deiluskipulagi Oddeyrarinnar. Það svæði sem um ræðir afmarkast af Hjalteyrargötu til vesturs, Gránufélagsgötu til norðurs, Kaldbaksgötu til austurs og Strandgötu til suðurs. Tillögurnar eru algjörlega á skjön við þá lýsingu sem þegar er búið að samþykkja vegna uppbyggingar á Oddeyrinni. Hæð þessara húsa myndu rýra verulega þá byggingarreiti sem þarna eru næst í kring sem og varpa miklum skugga á núverandi byggð til vesturs.

Þessi skipulagslýsing er unnin að án samráðs við núverandi eigendur þeirra húsa sem þarna fyrir eru og eftir að hún var kynnt í Hofi síðastliðinn mánudag hefur skipulagssvið þegar hótað eignarnámi séu menn ekki til í að selja bara strax. Hæð húsa mun ógna öryggi í aðflugi að Akureyrarflugvelli. Ekki er búið að rannsaka áhrif mengunar frá skemmtiferðaskipum í þessari hæð en fyrir liggur af þeim tölum sem borist hafa frá hafnaryfirvöldum að hún er veruleg. Bílastæða- og umferðaröryggismál hafa ekki verið könnuð, en þarna er ráðgert á litlum bletti að koma fyrir allt að 150 íbúðum.

Vanvirðing við Gránufélagshúsin með þessari tillögu er algjör. Samkvæmt þeirri skipulagslýsingu sem sviðstjóri skipulagssviðs bæjarins auglýsti nú þann 16. október síðastliðinn er gert ráð fyrir að veita einum verktaka leyfi til þess að byggja allt að fjórar 11 hæða blokkir á umræddum reit en núgildandi deiluskipulag þar gerir ráð fyrir 3-4 hæða íbúðarhúsnæði þar.“

 

Nýjast