Undirgöng ekki talinn raunhæfur kostur
Skipulagsráð Akureyrarbæjar hefur lagt til úrbætur til að bæta umferðaröryggi á Hörgárbraut á svæði frá Glerá að hringtorgi við Undirhlíð. Tíð slys hafi orðið við götuna undanfarin ár og nú síðast í febrúar þegar ekið var á sjö ára stúlku. Íbúar hafa kallað eftir undirgöngum en það þykir ekki raunhæfur kostur. Er áætlað að slík göng myndu kosta um 350 milljónir.
Fimm úrbætur á þessu ári
Vinna í samráði starfsmanna Vegagerðarinnar, umhverfis- og mannvirkjasviðs og skipulagssviðs Akureyrarbæjar hefur staðið yfir undanfarna mánuði. Í minnisblaði skipulagsráðs eru lagðar til fimm úrbætur til að auka umferðaröryggi við götuna sem farið verður í á þessu ári og miðast í stórum stíl að hraðatakmörkunum. Setja á upp skilti sem varar við gönguþverunum, umferð barna og hámarkshraða og sett verða upp hraðarvararskilti sem sýna raunhraða ökutækja og gefa til kynna ef ökumenn fara yfir settan hámarkshraða. Þá hefur Vegagerðin fengið fjármagn til að setja upp hraða- og rauðljósamyndavél til uppsetningar við gangbrautina á Hörgárbraut við Stórholt sem sett verður upp í samráði við lögregluna. Hraðamælingar eru í gangi á vegkaflanum til þess að geta með markvissari hætti lagt mat á áhrif aðgerðanna eftir að þær hafa verið framkvæmdar.
Loka á fyrir hjáleið frá Höfðahlíð inn á lóð N1 en borið hefur á því að fólk hefur stytt sér leið með því að fara inn Höfðahlíð, inn á lóð N1 og þaðan út á Hörgárbraut í stað þess að fara um hringtorgið við Undirhlíð. Samkvæmt gildandi deiliskipulagi er heimilt að loka þessari leið og er gert ráð fyrir að það verði gert með steyptum keilum til að byrja með. Þá er gert ráð fyrir að endurskoða ljósatíma gönguljósa. Ef reynsla af þeim aðgerðum sem lagt er til að farið verði í eru ekki taldar auka öryggi óvarðra vegfarenda nægjanlega mikið verður mögulega skoðað síðar hvort lækka verður hámarkshraða úr 50 km/klst í 40 km/klst.
Talið að fáir myndu nýta sér göngin
Í umræðu um bætt öryggi óvarðra vegfarenda hefur krafa um undirgöng undir Hörgárbraut við Stórholt verið nokkuð hávær. Í gildandi deiliskipulagi fyrir Glerá er gert ráð fyrir undirgöngum undir Hörgárbraut rétt norðan árinnar. Þau göng eru þó ekki talin nýtast börnum á leið í skólann eða Bogann þar sem göngin yrðu töluvert úr leið. Efla verkfræðistofa var fengin til að skoða hvernig koma mætti undirgöngum fyrir við Stórholt sem kæmu þá í stað ljósastýrðrar gönguþverunar. Um umfangsmikið mannvirki er að ræða sem felur einnig í sér gangandi og hjólandi þurfa að leggja á sig töluverðan hlykk.
„Er því talin hætta á að margir muni ekki nýta sér göngin heldur frekar fara beint yfir götuna. Auk þess eru göngin niðugrafin með stuttum aðdraganda. Þetta skerðir sýn vegfarenda inn í og úr göngunum sem getur virkað fráhrindandi og skert öryggistilfinningu vegfarenda,“ segir í minnisblaðinu. Þar sem endanleg hönnun á undirgöngum liggur ekki fyrir eru ekki til nákvæmar kostnaðartölur en miðað við reynslutölur frá framkvæmdadeild Vegagerðarinnar má áætla að kostnaður sé um 300-350 milljónir.