Umferð um Vaðlaheiði jókst um 5,7%

Vaðlaheiðargöng.
Vaðlaheiðargöng.

Þann 12. janúar sl. var eitt ár liðið síðan Vaðlaheiðargöng voru formlega opnuð fyrir umferð. Vaðlaheiðargöng höfðu verið opnuð fyrir umferð síðdegis 21. desember 2018 og var gjaldfrítt í göngin fyrstu daganna en gjaldtaka hófst formlega 2. janúar 2019.

„Heilt yfir gekk þetta fyrsta starfsár mjög vel fyrir utan að bíll ferðamanna brann í vegskálanum Fnjóskadalsmegin en sem betur fer gekk vel að slökkva og reykræsa göngin þannig að þau voru eingöngu lokuð í stutta stund,“ segir Valgeir Bergmann framkvæmdastjóri Vaðlaheiðarganga.

Nú liggja fyrir ýmsar tölur um umferð í Vaðlaheiðargöngum þetta fyrsta ár gjaldtöku. Skráning á „mitt.veggjald.is“ greiðslusíðu vegna Vaðlaheiðarganga hefur að sögn Valgeirs Bergmanns gengið ágætlega en skráðir virkir notendur eru 23.634 og skráð ökutæki 68.239.   

Fjöldi bíla í gegnum Vaðlaheiðargöng

Ef fyrst er skoðaður fjöldi bíla sem var ekið í gegnum Vaðlaheiðargöng á fyrsta rekstrarárinu kemur í ljós að heildarfjöldinn er 528.143 bílar. Á sama tíma fóru 173.980 bílar um Víkurskarð. Heildarfjöldi bíla um Vaðlaheiðargöng og Víkurskarð árið 2019 var því 702.123 bílar í samanburði við 664.463 bíla um Víkurskarð árið 2018. Samanlögð umferð um Vaðlaheiðargöng og Víkurskarð er sem nemur 37.660 bílum meiri árið 2019 en 2018, heildaraukning umferðar milli ára er 5,7%. Mest var umferðin í júlí en þá fór 78.481 bíll í gegnum Vaðlaheiðargöng, í ágúst voru þeir 68.932 og í júní 64.669 bílar. Umferðin er hins vegar minnst í svartasta skammdeginu, í janúar var hún 25.196 bílar, í desember 25.956 og í febrúar 26.104.

Valgeir Bergmann segir heildarumferðina fyrsta rekstrarárið ekki langt frá áætlunum, þrátt fyrir fækkun ferðamanna og frekar óhagstætt veðursfars hér á Norðurlandi á síðasta ári.

Ítarlegri umfjöllun um þetta mál má nálgast í net-og prentútgáfu blaðsins.  

 

Nýjast