Umferð um Þingvallarstrætið minnkar

Séð yfir gatnamót Þingvallarstrætis og Dalsbrautar. Mynd/Hörður Geirsson.
Séð yfir gatnamót Þingvallarstrætis og Dalsbrautar. Mynd/Hörður Geirsson.

Mælingar á umferð um helstu götur og gatnamót á Akureyri sýna að umferðin um Þingvallastræti hefur smám saman minnkað eftir að nýjar tengibrautir í bæinn voru opnaðar. Frá þessu er greint á vef Akureyrarbæjar.

Dregið hefur úr umferðinni um Þingvallastræti fyrst þegar Borgarbraut var opnuð árið 2000, síðan Dalsbrautin frá Þingvallastræti að Borgarbraut, þá Miðhúsabraut frá Þingvallastræti að Kjarnagötu og Dalsbraut, og loks Dalsbrautin frá Þingvallastræti að Miðhúsabraut. Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, segir þetta fagnaðarefni og rétt að dreifa bílaumferð jafnar um stærstu göturnar.

„Það eru ýmsir möguleikar í gatnakerfi bæjarins sem geta með réttri stjórnun og lagningu eða breikkun nýrra gatna gert okkur kleift að minnka álag á gömlum götum, jafnvel í miðjum íbúðahverfum. Ég held að þetta sé ágætt dæmi um það þegar vel tekst til. Tölurnar sýna a.m.k. svart á hvítu að dregið hefur umtalsvert úr umferð um Þingvallastrætið eftir að aðrar akstursleiðir um bæjarlandið voru opnaðar," segir Ásthildur.

Nýjast