Tveimur deildum lokað á Hólmasól vegna Covid-19 smits
Um helgina greindist foreldri barns á leikskólanum Hólmasól á Akureyri með Covid-19 smit. Til að gæta fyllsta öryggis hefur verið ákveðið að ráði sóttvarnalæknis og rakningateymis Almannavarna, að loka tveimur deildum leikskólans í tvær vikur. Börn og fjölskyldur þeirra, sem og kennarar á deildunum tveimur, verða í sóttkví til 27. mars.
Segir á vef Akureyrarbæjar að rétt sé að ítreka að hér sé fyrst og fremst um varúðarráðstöfun að ræða til að sporna gegn frekari smitum en aðrir úr fjölskyldu umrædds foreldris, öll börn og starfsfólk á Hólmasól, eru eftir því sem næst verður komist einkennalaus. Með því að grípa til réttra aðgerða verði vonandi hægt að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu sjúkdómsins.