13.nóvember - 20.nóvember - Tbl 46
Tryggir Akureyri sér oddaleik?
Fjórði leikur FH og Akureyrar í undanúrslitum N1-deildar karla í handknattleik fer fram í kvöld er liðin mætast í Höllinni á Akureyri kl. 19:00. FH hefur 2-1 yfir í einvíginu og getur með sigri í kvöld komist í úrslit en vinna þarf þrjá leiki til þess að komast áfram. Akureyri getur hins vegar tryggt sér oddaleik með sigri í kvöld en liðin myndu þá eigast við í fimmta sinn í Kaplakrika næstkomandi föstudag. Vikudagur heyrði í Einari Andra Einarssyni öðrum þjálfara FH og Heimi Erni Árnasyni fyrirliða Akureyrar um leikinn í kvöld.
Við erum fullir tillökkunnar, segir Einar Andri. Við förum í alla leiki til þess að vinna og ætlum að klára þetta einvígi í kvöld. Við förum fullir sjálfstrausts í leikinn eftir sigurinn í síðasta leik en við gerum okkur fyllilega grein fyrir því að það verður við ramman reip að draga. Það er alltaf erfitt að spila í Höllinni fyrir norðan en við erum einbeittir á verkefnið í kvöld. Við erum í dauðafæri í að komast í úrslit og ætlum okkur að nýta það, sagði Einar.
Heimir Örn segir Akureyringa hafa farið vel yfir sín mál eftir tapleikinn í Kaplakrika í síðasta leik og mæta hvergi bangnir til leiks í kvöld.
Ég og aðrir lykilmenn liðsins vorum einfaldlega á rassgatinu í síðasta leik og það kemur ekki fyrir aftur. Við ætlum okkur að vinna þennan leik í kvöld, líkt og við gerðum í síðasta heimaleik og stela þessu svo í oddaleiknum á föstudaginn. Ég reikna með fullu húsi í kvöld og brjálaðri stemmingu í Höllinni og við erum bara spenntir, sagði Heimir.