Treysta á gott sumar eftir erfiðan vetur

Vegna Covid 19 verður reynt að hvetja til ferðamennsku innanlands í sumar.
Vegna Covid 19 verður reynt að hvetja til ferðamennsku innanlands í sumar.

Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands, segir aðila í ferðaþjónustu á svæðinu áhyggjufulla vegna stöðunnar sem upp er komin vegna úbreiðslu COVID-19 veirunnar. Veturinn hafi verið ferðaþjónustunni erfiður og treysta því margir á gott sumar. Arnheiður segir að enn sem komið er hafi ekki verið mikið um afbókanir.

„Hins vegar er byrjað að hægjast á bókunum og það er erfitt fyrir okkur að bregðast við. Það er yfirvofandi áfall sem mun dynja á okkur og eina sem getur komið í staðinn fyrir erlenda ferðagesti er að herja á meiri ferðlög Íslendinga hér innanlands,“ segir Arnheiður. Hún segir að fari allt á versta veg geti mörg fyrirtæki í ferðaþjónustu, bæði stór og smá lognast útaf. „Sérstaklega í ljósi þess að fjármálakerfið er alveg lokað og þar af leiðandi getur vandinn gerst mjög hratt ef við fáum ekki sumartímabilið. Veturinn var erfiður og við treystum á gott sumar. Ef við töpum sumrinu líka þá munu einhver fyrirtæki eiga erfitt með að lifa það af.“

Óvissan mikil

Arnheiður segir síðasta sumar hafa verið gott á flestum stöðum og komandi sumar líti mjög vel út varðandi bókanir enn sem komið er. „En þetta getur breyst hratt. Ferðaþjónustufyrirtæki berjast vissulega við að halda bókunum og ef þetta gengur yfir á tveimur mánuðum getum við náð góðu sumri. En það er engin leið að segja til um hvernig þetta muni þróast.“ Arnheiður segir brýnt að aðilar í ferðaþjónustu verði á tánum. „Við verðum að vera tilbúin þegar hlutirnir færast í eðlilegt horf og uppsöfnuð ferðaþörf brýst út. Þá verðum við að vera klár í þann slag að ná ferðafólkinu til okkar og megum því ekkert slaka á í að markaðsetja svæðið.“

Draga úr kaupum og bíða með sumarráðningar  

„Við höfum áhyggjur af stöðunni enda full ástæða til,“ segir Steingrímur Örn Birgisson, forstjóri Hölds, Bílaleigu Akureyrar. Hann segir fyrirtækið hafa þegar sett af stað varúðarráðstafanir vegna yfirvofandi áhrifa veirunnar á reksturinn. „Við byrjuðum t.d. strax í febrúar að skoða með að draga úr kaupum og þá höfum við beðið með að ráða í sumarafleysingar. Menn eru að bíða og sjá hvernig þetta þróast og halda að sér höndum á meðan,“ segir Steingrímur.  

Stjórnvöld bregðast við

Stjórnvöld tilkynntu í vikunni aðgerðaráætlun vegna kórónuveirunnar þar sem m.a. er horft til þess að veita fyr­ir­tækj­um sem lenda í tíma­bundn­um rekstr­ar­erfiðleik­um vegna tekju­falls lengri frest til að standa skil á skött­um og op­in­ber­um gjöld­um. Þá er einnig til skoðunar að fella niður tekju­öfl­un sem er íþyngj­andi fyr­ir fyr­ir­tæki í ferðaþjón­ustu, t.d. gistinátta­skatt sem verður af­num­inn tíma­bundið. Þá verður markaðsátaki hleypt af stokk­un­um þegar aft­ur fer að birta til eft­ir far­ald­ur­inn og aðstæður til að kynna Ísland sem áfangastað batna.

 

Nýjast