Trausti Jörundarson nýr formaður Sjómannafélags Eyjafjarðar

Trausti Jörundarson og Konráð Alfreðsson fráfarandi formaður. Mynd/Þorgeir Baldursson.
Trausti Jörundarson og Konráð Alfreðsson fráfarandi formaður. Mynd/Þorgeir Baldursson.

Trausti Jör­und­ars­son var kjör­inn formaður Sjó­manna­fé­lags Eyja­fjarðar á aðal­fundi sjó­manna­fé­lags­ins á dögunum. Trausti tekur við starfinu af Konráði Alfreðssyni sem hefur gegnt stöðu formanns undanfarin 30 ár. Trausti segist í samtali við Vikudag vera spenntur fyrir starfinu.

„Þetta leggst ljómandi vel í mig og spennandi ár framundan. Kjarasamningar eru lausir í haust þannig að þetta byrjar með látum,“ segir Trausti. Hann segir sín fyrstu skref í starfi vera að ræða við félagsmenn og kynna sér almennt stöðu sjómanna. „Ég er hins vegar ágætlega inn í þessum málum þar sem ég er nýhættur á sjó en ég hef verið sjómaður frá árinu 2008. En það er alltaf gott að ræða við fólk og fá alla vinkla.“

Sem fyrr segir tekur Trausti við starfinu af Konráði Alfreðssyni sem hefur verið formaður undanfarna þrjá áratugi og því eru þetta ákveðinn tímamót fyrir félagið. Trausti segir að óhjákvæmilega verði áherslubreytingar. „Það kemur inn ný stjórn og nýr formaður og því fylgja alltaf einhverjar breytingar.“ Trausti bendir á að Sjómannafélag Eyjafjarðar sé stærsta einstaka sjómannafélagið innan Sjómannasambands Íslands með vel á þriðja hundrað félagsmenn.

„Félagið er því býsna stórt og ég held fólk hér svæðinu átti sig ekki alltaf á því hversu stórt félagið er í raun og veru. Verkefnin eru því mörg sem bíða og ég hlakka til að takast á við þetta,“ segir Trausti Jörundarson.   

Nýjast