Tölvuþrjótur stal á aðra milljón króna frá HA
Tölvuþrjótur hafði á aðra milljón króna af Háskólanum á Akureyri þegar hann komst inn í tölvupóstsamskipti starfsmanns skólans við erlent fyrirtæki og fékk hann til að millifæra upphæðina á annan bankareikning. Verkferlum í skólanum hefur verið breytt eftir að málið komst upp þannig að nú þurfa starfsmenn skólans að hafa samband símleiðis. Rúv greindi fyrst frá málinu.
Í tölvupósti til starfsfólks og nemenda segir að brotið sé kallað BEC (Business Email Compromise) árás og sé orðin ein algengasta og arðvænlegasta tegund tölvuárásar í dag.
Í póstinum segir ennfremur að á þessu skólaári hafi skólinn lent í tveimur öryggisbrestum. Upp um síðara atvikið komst fyrir slysni, þegar kaffi helltist yfir lyklaborð og í ljós kom lítið USB tæki (Keylogger). Tækið er tengt í tölvuna og lyklaborðið og les allan innslátt frá lyklaborðinu. Þannig getur tækið veitt notendanafn og lykilorð. Þessi litlu USB tæki eru í senn mjög einföld og flókin og ósýnileg tölvunni. Í þessu atviki náði skólinn að koma í veg fyrir að upplýsingarnar sem voru í skránni færu til þess aðila sem kom tækinu fyrir.
Samt sem áður var haft samband við alla notendur sem voru í skránni og þeir beðnir um að breyta lykilorðum til vonar og vara. Þá er allt starfsfólk beðið að vera meðvitað um að skilja ekki skrifstofurnar sínar opnar og ólæstar þegar þær eru ekki í notkun.