13.nóvember - 20.nóvember - Tbl 46
Tjaldsvæðisreitur og Skarðshlíð hentugast fyrir heilsugæslustöðvar
Á síðasta fundi skipulagsráðs Akureyrarbæjar var lagt fram minnisblað um mögulegar lóðir til uppbyggingar tveggja heilsugæslustöðva. Allt frá haustinu 2018 hefur verið í gangi samráð bæjaryfirvalda við Heilbrigðisstofnun Norðurlands (HSN) vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar á nýjum heilsugæslustöðvum á Akureyri.
Samkvæmt þarfagreiningu HSN er þörf á að byggja tvær heilsugæslustöðvar þar sem miðað er við að byggja eina stöð sem þjóna á norðurhluta bæjarins og aðra til að þjóna suðurhlutanum. Markmiðið er bæði að bæta aðstöðu starfsmanna heilsugæslunnar sem og aðgengi íbúa á svæðinu að heilsugæsluþjónustu.
Fyrsti kostur á lóð fyrir heilsugæslu í norðurhluta bæjarins er Skarðshlíð 20. Um er að ræða 6.129 fm óbyggða lóð þar sem gildandi deiliskipulag gerir ráð fyrir að heimilt sé að byggja tvö fjölbýlishús, fjögurra og fimm hæða, sem samtals geta verið allt að 6.742 fm að stærð með bílakjallara fyrir 46-60 íbúðir. Segir í umsögn að forsenda fyrir byggingu heilsugæslustöðvar á þessari lóð sé að gera ráð fyrir starfseminni á jarðhæð með íbúðum á efri hæðum ásamt bílakjallara. Um er að ræða mikilvægan þéttingarreit sem óhentugt væri að nýta eingöngu fyrir heilsugæslustöð. Aðrir kostir sem eru nefndir eru fyrir heilsugæslu í norðurhluta bæjarins eru svæði austan Hlíðarbrautar á móti gatnamótum við Baldursnes og svæði við Lögmannshlíð.
Varðandi byggingu í suðurhluta bæjarins er tjaldsvæðisreitur við Þórunnarstræti nefndur sem fyrsti kostur. Samkvæmt gildandi deiliskipulagi og núverandi notkun er svæðið að mestu nýtt sem tjaldsvæði en gert er ráð fyrir að sú starfsemi hætti eftir sumarið 2020. Í aðalskipulagi er svæðið skilgreint sem íbúðarsvæði/þróunarsvæði. Um sé að ræða mikilvægan þéttingarreit og væri því æskilegt að gera ráð fyrir að heilsugæslustöð yrði á jarðhæð í stærra húsi með íbúðum eða annarri starfsemi á efri hæðum, segir í umsögn.
Önnur svæði sem nefnd er sem möguleg staðsetning í suðurhluta bæjarins eru Hafnarstræti 80 og Austurbrú 10-12. Um er að ræða tvær lóðir sem hafa nýlega fallið til bæjarins. Til viðbótar bendir skipulagsráð á þrjú svæði sem gætu hentað fyrir heilsugæslustöð fyrir suðurhluta bæjarins og eru í eigu ríkisins; hluta af lóð Menntaskólans á Akureyri, lóð við Sjúkrahúsið og lóð við Verkmenntaskólann.
Skipulagsráð hefur samþykkt að fela sviðsstjóra skipulagssviðs að koma tillögum um lóðir til uppbyggingar á heilsugæslum á Akureyri á framfæri við Ríkiskaup.