Átaksverkefni um nýtingu moltu á Norðurlandi

Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri á Akureyri, Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráð…
Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri á Akureyri, Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra og Guðmundur Haukur Sigurðarson framkvæmdastjóri Vistorku undirrituðu samkomulagið. Mynd/Akureyrarbær.

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur í samstarfi við Vistorku, Akureyrarbæ og fleiri aðila ákveðið að ráðast í tilrauna- og átaksverkefni um nýtingu moltu í landbúnaði, skógrækt og landgræðslu. Í tilkynningu frá Akureyrarbæ segir að lífrænn úrgangur sé auðlind á villigötum.

„Urðun er kostnaðarsöm og veldur losun gróðurhúsalofttegunda. Mikill meirihluti losunar vegna meðhöndlunar úrgangs kemur til vegna losunar metans og annarra gróðurhúsalofttegunda við niðurbrot lífbrjótanlegra efna í úrganginum. Samkvæmt aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum er stefnt að banni við urðun lífræns úrgangs. Stórbæta má nýtingu á lífrænum úrgangi, m.a. með því að vinna úr honum moltu. Molta hefur verið prófuð í landgræðslu og skógrækt en skoða þarf nánar hvernig hún reynist við mismunandi aðstæður. Notkun á moltu getur haft margþættan ávinning í för með sér.“

Verkefnið er þríþætt:

1. Skógrækt ofan Akureyrar. Lagður grunnur að 135 ha skóglendi á um 700 ha landsvæði
til útivistar við Græna trefilinn. Sumarið 2020 verða fengnir allt að 10 háskólanemar í
átaksvinnu við verkefnið sem felst m.a. í vinnu við undirbúning svæða, gróðursetningu,
girðingarvinnu og dreifingu á moltu. Gert er ráð fyrir að hægt verði að nýta um 1.800
m³ af moltu á Glerárdal í þessum hluta verkefnis. Auk þess verður lagður grunnur að
Moltulundi þar sem gerð er tilraun til trjáræktar og landgræðslu á rýru svæði yfir 500
metrum.

2. Landgræðsla á Hólasandi. Fyrirhugað er að flytja moltu á valda staði á Hólasandi og
nýta sem áburð á birki.

3. Repjurækt í Eyjafirði. Tveggja ára verkefni sem hefst í júlí 2020 þar sem molta verður
nýtt við repjurækt. Gert er ráð fyrir ræktun á bæði sumar- og vetrarrepju.
Þetta er hluti af aðgerðum stjórnvalda í loftslagsmálum sem hefur verið flýtt vegna Covid-19
en með landgræðslu og skógrækt er stuðlað að aukinni bindingu kolefnis.
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið styður verkefnin fjárhagslega en Vistorku hefur verið falið
að framkvæma þau í samstarfi við Akureyrarbæ, Orkusetur, Moltu, Skógræktina,
Landgræðsluna og Landbúnaðarháskóla Íslands.

Nýjast