Þungur rekstur Listasafnsins
Stjórn Akureyrarstofu vill að farið verði nú þegar í hagræðingu í rekstri Listasafnsins á Akureyri og stefnt verði að því að hann verði innan fjárhagsáætlunar. Að óbreyttu stefnir í um 18 milljóna króna tap á rekstri Listasafnsins á yfirstandandi ári. Safnstjóri Listasafnsins mætti á fund stjórnar Akureyrarstofu nýverið og fór yfir endurskoðaða fjárhagsáætlun safnsins fyrir árið 2019. Stjórnin telur þær hugmyndir sem lagðar voru fram á fundinum hins vegar ekki fullnægjandi og hefur falið sviðsstjóra í samvinnu við fjársýslusvið að vinna úttekt á rekstri Listasafnsins á yfirstandandi rekstrarári.
Dræm miðasala og kaffihúsið gengur illa
Nýtt og endurbætt Listasafn var formlega vígt fyrir tæpu ári síðan eftir stórfelldar endurbætur og stækkun á húsakynnum þess. Endurbæturnar kostuðu alls um 700 milljónir kr. Hilda Jana Gísladóttir, formaður stjórnar Akureyrarstofu, segir stjórnina hafa fylgst náið með rekstri Listasafnsins á fyrsta starfsárinu eftir umfangsmiklar breytingar.
„Því miður hefur fjárhagsáætlun á fyrri hluta ársins ekki gengið eftir og fyrir því virðast vera nokkrar ástæður. Sem dæmi má nefna að eftir að áætlunargerð fyrir yfirstandandi ár lauk síðasta haust var keypt talsvert af nauðsynlegum stofnbúnaði inn í safnið og þess vegna er leiga vegna þeirra kaupa ekki inn í fjárhagsáætlun og veldur skekkju,“ segir Hilda Jana. Þá hafi miðasala ekki staðist væntingar og einnig hefur Listasafnið orðið af tekjum vegna þess að rekstur einkaaðila á kaffihúsi gekk ekki sem skyldi.
Beðið með ákvörðun um næstu skef
„Stjórn Akureyrarstofu taldi eðlilegt að bregðast hratt við og fara nú þegar í úttekt á rekstri safnsins til þess að greina ítarlega hvers vegna fjárhagsáætlun hefur ekki staðist. Þegar sú úttekt liggur fyrir tökum við ákvörðun um næstu skref,“ segir Hilda Jana.